139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

hagræðingarkrafa í heilbrigðiskerfinu.

[14:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mikilvægt þegar við förum í gegnum þessa umræðu að við áttum okkur á því að annars vegar erum við einmitt að ræða um þjónustu við sjúklinga, við erum að ræða um grundvallaratriði varðandi þjónustuna á hverju svæði, hvað er forsvaranlegt, hvað er góð þjónusta, hvað þarf að vera á hverju svæði. Hins vegar er um að ræða um atvinnu- og byggðamál og þó að það eigi helst ekki að blanda þessu saman er það óhjákvæmilegt í þeirri stöðu sem við erum í í dag.

Það hefur sýnt sig m.a. í frammistöðu Landspítalans að hægt er að gera verulegar breytingar og ná fram verulegum sparnaði með breytingum án þess að um verulegan niðurskurð á þjónustu verði að ræða. Það segir okkur að með tiltektum og lagfæringum er hægt að ná árangri. Það er verkefni okkar sameiginlega að hafa skýran fókus á það til hvers verið er að reka þjónustuna, hvar á að reka hana og hvernig á sem hagkvæmastan hátt.