139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

38. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna. Hann er 2. flutningsmaður málsins og því kemur ekki á óvart að við séum sammála í þessu. Ég vildi hins vegar spyrja hann sérstaklega út í einn þátt og sjónarmið hans varðandi hann og það er það sem snýr að því að sundurliða og sýna afskriftir, almenna fyrirgreiðslu til handa fyrirtækjum. Við vorum á fundi í hv. viðskiptanefnd í morgun og þangað kom einmitt eftirlitsnefnd, sem hv. þingmaður nefndi, sem er undir forustu Maríu Thejll sem hefur gefið út skýrslu um stöðu mála frá því að hún tók við. Það var mjög áhugavert að heyra nefndarmenn tala við hv. þingmenn í viðskiptanefnd um þau mál.

Ég spurði m.a. hvað þeim fyndist um það að hafa þetta opið, þ.e. að þetta væri gegnsætt — svo maður noti það tískuorð sem er kannski að verða eitthvað annað en til var ætlast, en við skulum ekki ræða það. Formaður þessarar eftirlitsnefndar taldi að það væri mjög æskilegt að þetta væri uppi á borðum. Formaður nefndarinnar vísaði sérstaklega til þess að nefndin hefði mælst til þess eða í það minnsta verið ánægð með það að bankarnir sumir hverjir væru með þau úrræði sem þeir bjóða upp á á netinu og telur að það sé eina leiðin fyrir bankana vegna þess að þegar menn vita að hverju þeir ganga þá vita þeir að þeir eru að fá sömu afgreiðslu og eigandi fyrirtækisins við hliðina á. Ég held að það sama gildi um afskriftirnar, við verðum að afskrifa, það er lykilatriði (Forseti hringir.) en til að eyða tortryggninni er mikilvægt að allir viti að hverju menn ganga.