139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[15:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð umræða og kemur málinu svo sem ekkert voðalega mikið við. En það sem veldur því að hér er almennt orðið vandamál er atvinnuleysi. Það er mikið atvinnuleysi og það er orðið varanlegt atvinnuleysi. Fólk sem er atvinnulaust getur ekki borgað af lánunum sínum af því atvinnuleysisbæturnar eru svo lágar. Fyrir þá upphæð sem við erum hér að tala um, 200 milljarða, mætti sennilega hækka atvinnuleysisbætur upp í 90% af fyrri launum í fjögur til fimm ár. Það mundi laga stöðu margra, sérstaklega ef þeir fengju greitt aftur í tímann, fyrir árið 2009 og jafnvel 2008. Fyrir þessa gífurlegu upphæð mætti gera það, fyrir 200 milljarða.

Það mætti líka aflétta sköttum. Það mætti alveg bakka með allar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar fyrir þessa gífurlegu upphæð. Það mundi nú gleðja marga, frú forseti. Það er reyndar það sem við sjálfstæðismenn höfum lagt til. Kallað var eftir því í dag hverjar hugmyndir Sjálfstæðisflokksins væru af því að ríkisstjórnin hefur engar hugmyndir. Við komum að sjálfsögðu með hugmyndir og höfum gert það og munum gera það áfram.

Það sem fjölskyldurnar í landinu vantar er atvinna og lægri skattar. Þær þurfa að losna frá þeim skattahækkunum sem ríkisstjórnin hefur lagt á. Og alveg sérstaklega vantar heimilin úrræði, að menn geri eitthvað. Ég held að menn séu mest að kvarta yfir því að það er ekkert gert. Það vill svo til að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur verið að skamma, af því það hentar, er ekki í ríkisstjórn. Það er bara þannig. Hann hefur ekki vald á þessum málum en hann mun að sjálfsögðu vinna með því og koma með góðar hugmyndir. Ég sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í félagsmálanefnd og aðrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar höfum unnið mjög mikið og markvisst að því að búa til lausnir fyrir þau heimili sem eru í þessum vanda.