139. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2010.

gerð samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

17. mál
[14:55]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er einnig gamall kunningi. Það var lagt fram á Alþingi á síðasta þingi. Að lokinni fyrri umræðu var því vísað til utanríkismálanefndar. Þaðan var málið sent til umsagnar og viðbrögð sem bárust voru mjög jákvæð. Má vísa í umsögn iðnaðarráðuneytisins sem tekur undir að hafin verði sú stefnumótun sem tillagan kveður á um og Samtök atvinnulífsins mæla sömuleiðis með samþykkt tillögunnar í umsögn sinni. Því miður var málið hins vegar ekki afgreitt frá Alþingi á síðasta þingi og er þess vegna endurflutt.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara ítarlega yfir efni þessa máls. Það gerði ég þegar ég mælti fyrir því í fyrra sinnið. Málið lýtur að því að við vitum að mjög brýnt er að laða erlenda fjárfesta hingað til lands. Hingað vantar sárlega fjármagn, bæði lánsfjármagn og einnig áhættufjármagn að öðru leyti. Við vitum á hinn bóginn að trúverðugleiki okkar á erlendum vettvangi hefur víða beðið hnekki og það er ein ástæða þess að erlendir fjárfestar hafa haldið að sér höndum og eru ekki viljugir til að fjárfesta hér á landi.

Við þekkjum það frá öðrum ríkjum sem vilja laða til sín erlenda fjárfesta að þau gera það m.a. með því að skapa traust og trúverðugleika. Oft hefur verið rætt um ýmsar ívilnandi aðgerðir í þessu sambandi. Þetta mál snýr ekki að því. Þar er fyrst og fremst verið að reyna að búa til ramma sem gerir það að verkum að þeir sem hafa áhuga á því að hasla sér völl í fjárfestingum geti gert það með sæmilegu öryggi.

Önnur hlið þessa mál, sem hefur kannski vakið minni athygli, lýtur beinlínis að hagsmunum Íslendinga erlendis. Við vitum að Íslendingar, íslenskir aðilar, bæði lífeyrissjóðir, einstaklingar, fyrirtæki og jafnvel bankastofnanir eiga umtalsverða fjármuni bundna í erlendum fjárfestingum af mörgu tagi og þrátt fyrir hrunið mikla eru í bókum okkar bókfærðar umtalsverðar eignir Íslendinga erlendis á móti þeim skuldum sem í flestum tilvikum standa á bak við þær.

Samkvæmt nýjasta yfirliti Seðlabanka Íslands má sjá að heildareignir okkar í útlöndum nema um 8.400 milljörðum kr. Þar er auðvitað ekki allt sem sýnist. Við vitum að margar þessar eignir eru einskis virði í dag, en þær gefa engu að síður til kynna að þarna sé um að ræða mikla hagsmuni fyrir okkur.

Gagnkvæmir samningar um vernd fjárfestinga sem hafa kannski ekki verið mjög mikið ræddir hér á Íslandi eru líka tiltölulega nýir. Þá má rekja til ársins 1959 þegar fyrsti samningurinn af þessu tagi leit dagsins ljós. Samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga eru í dag u.þ.b. 2.500 í heiminum. Flest vestræn ríki eru með tugi slíkra samninga í gildi.

Þessir samningar eru tvíhliða þar sem þau ríki sem í hlut eiga leitast við að skapa hagstæðar aðstæður fyrir fjárfestingar af hálfu fjárfesta annars ríkisins á landsvæði hins. Ástæðurnar sem þessi ríki hafa fyrir því að gera slíka samninga eru m.a. að tryggja aukna vernd fjárfestinga þegna sinna erlendis og laða að erlenda fjárfestingu með því að veita erlendum fjárfestum aukna vernd.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að rekja frekar efni þessara samninga, það geta menn kynnt sér í greinargerð þingsályktunartillögunnar. En deilur sem gætu skapast um þessa samninga milli ríkja getur hvor samningsaðili fyrir sig lagt fyrir gerðardóm sex mánuðum eftir að slíkar samningaviðræður um úrlausn deilu hefjast og er slíkur gerðardómur þá skipaður sérstaklega í öllum tilvikum.

Það er áhugavert í sjálfu sér að velta því fyrir sér hvort samningar af þessum toga hefðu breytt einhverju í þeim erfiðu og sársaukafullu deilum sem við höfum staðið í upp á síðkastið. Því velti ég upp á sínum tíma þegar ég hóf þetta mál með því að leggja fram fyrirspurn á Alþingi fyrir hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson. Hann vék að þessu atriði í svari sínu og sagði þá, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég vil síðan í lokin segja að undir ræðu minni hef ég aðeins verið að þenkja um hugmynd hv. þingmanns um að ef í gildi væri slíkur samningur milli okkar og Bretlands. Ég hygg að það sé alveg rétt að við hefðum átt tök á því að skjóta þeirri ákvörðun sem breska ríkisstjórnin tók í október sl. til slíks gerðardóms. Það hefði væntanlega styrkt stöðu okkar töluvert í því stríði sem háð var um þann tiltekna hluta þeirrar deilu.“

Þetta sjónarmið er ákaflega athyglisvert og mjög í samræmi við þá hugsun sem býr að baki þeirri þingsályktunartillögu sem hér er flutt.

Af því að Bretar koma hér til umfjöllunar er athyglisvert að Bretland hefur gert flesta slíka samninga af ríkjum heimsins og er með yfir 100 slíka samninga í gildi við hin ýmsu ríki, þó ekki við Ísland. Það er ekki ólíklegt að þetta eigi að nokkru leyti rætur sínar að rekja til reynslu Breta af fjárfestingum víða um heim, Bretland er gamalt heimsveldi, samveldisríki, og þeir gera sér mætavel grein fyrir, kannski best af öllum, þýðingu þess að fjárfestar geti notið eðlilegrar verndar við viðsjárverðar aðstæður.

Ég fékk þær upplýsingar úr svari hæstv. utanríkisráðherra á sínum tíma, sem ég vék að hér áðan, að Ísland hefði gert ellefu samninga af þessu tagi, þ.e. við Síle, Egyptaland, Indland, Suður-Kóreu, Kína, Lettland, Líbanon, Litháen, Mexíkó, Víetnam og Singapúr. Samningarnir við Egyptaland og Líbanon bíða raunar fullgildingar, en fyrrgreindir samningar ná allir til gagnkvæmrar verndar fjárfestinga. Reyndar er frammistaða okkar við gerð slíkra samninga ekki ofarlega á lista þegar fjöldi samninga á heimsvísu er skoðaður. Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Alþjóðastofnunarinnar um lausn fjárfestingardeilna er Ísland í 119.–123. sæti af þeim 174 þjóðum sem yfir höfuð hafa gert slíka samninga.

Þau ríki sem deila sætum með Íslandi í þeim efnum og hafa gert u.þ.b. jafnmarga samninga og við eru Búrkína Fasó, Trínidad og Tóbagó, Saír og Sambía.

Því miður virðist sem fátt sé að gerast í þessum efnum hér á landi og þess vegna tel ég ástæðu til þess að Alþingi marki stefnu í þessa veru.

Ég vísa síðan aftur til þess sem ég nefndi í upphafi að þær umsagnir sem bárust um þetta mál á síðasta þingi voru allar lofsamlegar og ég treysti því og trúi að um þetta mál geti þess vegna tekist þverpólitísk samstaða. Þetta er í raun ekki pólitískt mál í þeim skilningi, a.m.k. ekki flokkspólitískt mál, þetta er pólitískt mál í þeim skilningi eingöngu að við erum að reyna að vernda eigin hagsmuni, annars vegar eignir okkar erlendis sem þjóðar og síðan að laða að með eðlilegum hætti erlendar fjárfestingar í þeim mæli sem við teljum skynsamlegt.