139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

háskólamál.

[15:58]
Horfa

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram.

Háskólar á Íslandi hafa lengi verið öflugir og þar er unnið mikið og gott starf. Á síðustu áratugum hefur námsframboð aukist verulega, einkareknum háskólum hefur verið hleypt á stokkana og samkeppni milli skólanna hefur aukist. Allt þetta hefur breytt umhverfi háskólasamfélagsins verulega. Það að nemendur geti sótt sér grunnnám í landinu skiptir miklu máli fyrir eyríki eins og Ísland en einnig er nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að nemendur fari úr landi til að ná sér í framhaldsmenntun, víkki þar sjóndeildarhringinn og komi til baka með nýja reynslu í farteskinu okkur til framdráttar.

Það sem Alþingi verður fyrst og fremst að huga að á tímum sem þessum, frú forseti, er að tryggja að grunnnám sé fjölbreytt og gott og að við höfum tækifæri til að skila sterkum námsmönnum út í framhaldsnám. Það má ekki gerast að við missum út sértækt nám og glötum þar með þekkingu sem við höfum byggt upp í gegnum árin í gegnum rannsóknir og vinnu. Ég tel hins vegar mikilvægt að athugað verði hversu margar deildir með sama námsefni er nauðsynlegt að hafa hér. Er t.d. nauðsynlegt að hafa fjórar viðskiptafræðideildir eða þrjár lögfræðideildir á Íslandi?

Samkeppni er vissulega af hinu góða en þegar árferðið er eins og núna verðum við að horfa á heildarsamhengið. Ég tel mikilvægt að hafa tvær deildir í stærstu og vinsælustu deildum háskólasamfélagsins en í öðru má spara. Það er alltaf sárt að þurfa að skera niður en því miður eru þær aðstæður uppi núna og það er á ábyrgð okkar á Alþingi að takast á við þá staðreynd. Við verðum því að taka allar breytur með í reikninginn, ráðfæra okkur við háskólastofnanir landsins og vinna með þeim að heildarlausn sem er ásættanleg miðað við aðstæður fyrir alla, líkt og hæstv. menntamálaráðherra leggur sig fram um að gera.