139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

háskólamál.

[16:00]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu og jafnframt þakka fyrir þá viðleitni sem sýnd er í fjárlagafrumvarpinu til stefnumörkunar á háskólasviðinu. Þá á ég einkum við hugmyndir um samstarfsnet háskóla. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að auka samstarf milli háskólanna og reyna að ná einhverjum samlegðaráhrifum, svo að ég noti tískuorð úr viðskiptalífinu. Ég held líka að það þurfi að ganga miklu lengra og tek undir þau sjónarmið sem hafa almennt komið fram í máli annarra ræðumanna hér um að fara þurfi í miklu róttækari stefnumörkun. Ég held að þetta sé svolítið djúpstætt vandamál á háskólasviði á Íslandi. Ég held að stefnumörkun á háskólasviðinu á Íslandi hafi eiginlega alltaf verið tilviljanakennd. Það sést kannski best á því að uppbygging Háskóla Íslands er reist á happdrætti. Ef ekki væri fyrir happdrættið veit ég ekki hvar Háskóli Íslands væri, satt að segja. Á undanförnum árum höfum við líka séð birtingarmynd þessa. Ég veit ekki hvenær var ákveðið að hafa svona marga háskóla á Íslandi, svona mörg háskólasetur, ég man ekki alveg hvenær sú ákvörðun var tekin en það er raunveruleikinn sem við búum við.

Núna finnst mér áríðandi að við tökum okkur taki, sem þjóð, vegna þess að sóknarfærin í menntamálunum eru gríðarleg. Hér hefur t.d. verið minnst á raungreinar, það vantar raungreinamenntað fólk til að standa að atvinnuuppbyggingu. Ef við mundum setja meiri pening í Tækniþróunarsjóð og efla raungreinamenntun hefðum við líklega eitthvert besta atvinnuuppbyggingartækifæri sem okkur byðist. Núna ríður vissulega á að fara í þetta erfiða niðurskurðarverkefni og marka stefnu á háskólasviði af þeirri róttækni sem þarf til að koma í veg fyrir að uppbygging háskólastofnana á Íslandi verði áfram tilviljanakennd eins og eitthvert happdrætti. Það held ég að sé stóra verkefnið.