139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

háskólamál.

[16:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það þarf að standa vörð um menntun á öllum skólastigum, sérstaklega í núverandi efnahagsástandi. Við skulum ekki missa sjónar á því að samkeppnishæfni þjóðarinnar til framtíðar byggir á góðri menntun. Vitað er að eftirspurn í háskóla og framhaldsskóla eykst með auknu atvinnuleysi og nauðsynlegt er því að auðvelda fólki að fara aftur í nám til að koma í veg fyrir að atvinnuleysi verði enn stærra félagslegt vandamál. Þegar hefur verið gripið til aðgerða í þá veru með því að breyta reglum um tekjuviðmið þeirra sem fara aftur í nám eftir hlé og með því að hækka grunnframfærslu námslána með tilheyrandi millifærslum frá atvinnuleysistryggingum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Virðulegi forseti. Við þurfum að spyrja okkur hvernig háskólasamfélag við viljum og þurfum á að halda. Fjárveitingar hafa verið skornar niður og ef við klípum alltaf hlutfallslega jafnmikið af öllu mun kerfið veikjast en ef við setjum niður hvaða fræðasvið við þurfum að efla og hvaða möguleikar eru til samvinnu og verkaskiptingar og fylgjum þeim fast eftir styrkjum við kerfið.

Sameining háskóla og aukin samvinna milli þeirra á sér stað um þessar mundir í nágrannalöndum okkar. Hugmyndin er að styrkja háskólakerfið þar og það er einnig markmið okkar. Flækjunum við að ná því markmiði þarf að greiða úr, svo sem þeim sem tengjast mismunandi rekstrarformum. Styrkja þarf samstarf vísindamanna og fyrirtækja og hvetja til þess að góðar vísindarannsóknir skili sér til samfélagsins. Í því samstarfi þarf að gæta að siðareglum eins og annars staðar þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. Samfélagslega ábyrgð allra háskóla þarf að efla og leggja áherslu á það hlutverk með lagasetningu um einkarekna háskóla eins og gert hefur verið um þá opinberu.

Ég tel að stór þáttur í endurreisn íslensks samfélags liggi í áherslu okkar á menntun og vísindi og hvernig okkur tekst að samhæfa þá krafta sem þar búa.