139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

efnahagur Byggðastofnunar.

14. mál
[17:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem er bráðnauðsynleg. Hæstv. ráðherra staðfestir hér með að málið var ekki kynnt fyrir iðnaðarráðuneytinu áður en hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók ákvörðun um að taka aflamarkið af í rækjuveiðum með þeim afleiðingum að það kostar Byggðastofnun um 1,3 milljarða og segir manni allt sem segja þarf um hvernig unnið er að þessum málum.

Að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti tekið slíka ákvörðun án þess að kynna hana í ríkisstjórn eða kynna sér hvaða afleiðingar það hefur fyrir Byggðastofnun er alveg hreint með ólíkindum. Það er eins og hann taki slíkar ákvarðanir þegar hann vaknar á morgnana, ákvarðanir sem setja Byggðastofnun á hausinn, og þá þarf væntanlega að leggja niður starfsemina.

Einungis örfáum dögum áður en þessi ákvörðun var kynnt seldi Byggðastofnun frá sér aflamark í rækju fyrir 160 millj. kr. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvort henni sé kunnugt um hvort stofnunin sé í viðræðum við þá aðila sem keyptu (Forseti hringir.) þar köttinn í sekknum, um að það verði leiðrétt.