139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

samvinna mennta- og menningarstofnana á Suðurlandi.

36. mál
[17:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég ætla að ganga út frá því að við höldum áfram að klára þau mál sem eru óleyst vegna Landeyjahafnar og sýnum ekki bara Eyjamönnum stuðning í því verki heldur að drögum fram mikilvægi þess að efla þessa tengingu milli lands og Eyja. Ég geng út frá því að þeir annmarkar sem eru á Landeyjahöfn verði einfaldlega lagaðir. Við sáum strax í sumar hversu mikilvæg þessi tenging er fyrir landsmenn alla, hvort sem við erum að tala um Eyjamenn, fólk á suðvesturhorninu, austan, norðan, sunnan eða vestan heiða. Við skulum því vona að gripið verði fljótt inn í þau mál þannig að samgöngur milli lands og Eyja verði sem bestar. Ég hef gengið út frá því að svo verði.

Á sínum tíma kannaði ég bæði aukin samskipti og möguleika varðandi mennta- og menningarstofnanir með tilkomu hafnarinnar. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvað hafi verið skoðað með tilkomu Landeyjahafnar. Ég tel að þarna hafi opnast miklir möguleikar, þ.e. ef þetta gengur allt saman eftir, að höfnin fúnkeri vel, möguleikar fyrir menntastofnanir eins og til að mynda fyrir framhaldsskólann í Eyjum við að koma upp t.d. framhaldsdeild í kringum Hvolsvöll eða á Hellu.

Við sjáum ánægjulega tilraun sem fór af stað á sínum tíma á Patreksfirði, framhaldsdeild á sunnanverðum Vestfjörðum til að tengja betur það byggðarlag við framhaldsskólamenntun og veita börnunum þar tækifæri til að vera heima til 18 ára aldurs. Það samstarf var unnið í samvinnu við framhaldsskólann á Snæfellsnesi og hefur gengið vel. Ég hef fengið það staðfest að menntamálaráðuneytið hefur lýst því yfir að það ætli að halda áfram þessu verkefni og það sé í rauninni hætt að tala um þetta sem tilraun heldur sé þetta orðið viðvarandi verkefni. Ég vil óska menntamálaráðherra sérstaklega til hamingju með þá ákvörðun. Ég held að þetta sé merkileg pólitísk ákvörðun því að við munum sjá að raunhæfur þrýstingur fólks til að afla menntunar fyrir börn sín í heimahögum mun aukast. Með aukinni tækni og bættum samgöngum eigum við að gera fólki kleift að hafa börnin sem lengst í heimabyggð. Það þarf ekki að kosta meira, það getur meira að segja kostað samfélagið minna að leysa það á þennan hátt. Það skiptir máli að eygja möguleikana þegar þeir gefast og núna sjáum við þessa auknu samgöngubúbót fyrir Vestmannaeyjar. Hvernig getum við notað þessar samgöngubætur í þágu menntunar, hvernig getum við nýtt þær í þágu menningarstofnana og byggt þær upp? Ég efa ekki að hæstv. ráðherra hefur skoðað þetta gaumgæfilega. Ég trúi ekki öðru en að við getum komið til móts við þær óskir og þarfir Sunnlendinga að athuga með framhaldsdeild á Suðurlandi, m.a. í tengslum við framhaldsskólann í Vestmannaeyjum sem með því gæti þá orðið ákveðinn móðurskóli. Hægt er að tala um margar fleiri stofnanir, m.a. sjúkrastofnunina í Vestmannaeyjum sem gerð er atlaga að núna. Ég tel að við eigum miklu frekar að kortleggja (Forseti hringir.) þá möguleika sem getur eflt byggðina í landinu.