139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[15:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta svar hæstv. ráðherra. En ég tel að að einhverju leyti sé verið að koma í bakið á þeim aðilum sem fóru í friðlýsingarferlið á sínum tíma og tóku ákvarðanir í trausti þess að ekki væri verið að gabba þá til að afsala sér réttindum til að nýta landsvæði sín um aldur og ævi. Hér er komið í bakið á fólki og það er einfaldlega ljót pólitík.

Það er mjög tilviljunarkennt, eins og ég sagði áðan, hvort afstaða er tekin í friðlýsingarskilmálum til hugsanlegrar virkjunar. Ég gat ekki heyrt annað á máli hæstv. ráðherra en að ekki lægju fyrir neinar upplýsingar um hvaða áhrif þetta hefði. Í fljótu bragði mundi ég telja að t.d. allt Torfajökulssvæðið væri utan þess svæðis sem yrði nokkurn tímann rannsakað eða virkjað, en þar er að finna þriðjung af öllum þeim jarðhita sem við Íslendingar eigum. Ég tel mjög eðlilegt að Torfajökulssvæðið, eins og önnur svæði, fari í mat (Forseti hringir.) hjá verkefnisstjórninni um rammaáætlun og ég hef fulla ástæðu til að ætla að það mat standist.