139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

aðstoð við fátæka.

[10:41]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Í síðustu viku sóttu um 550 manns sér mat til Fjölskylduhjálpar Íslands. Í gær voru það að sögn starfsfólks miklu fleiri. Fólkið stendur utan dyra í biðröðum, oft tímunum saman, nema í gær lánaði rútufyrirtæki bifreið til að fólk gæti haldið á sér hita í nepjunni. Fréttamenn frá franskri sjónvarpsstöð voru á vettvangi og voru þeir hissa á ástandinu, sögðu aðstæður í rauninni einsdæmi í allri Evrópu.

Miðað við alla þá mjög svo undarlegu liði sem fá fjárveitingu í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi, svo sem tæpir 5 milljarðar til þjóðkirkjunnar, milljónir til hestamannafélaga vegna kvefpestar í hrossum, spyr ég hæstv. fjármálaráðherra að eftirfarandi:

Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að fátækt fólk á Íslandi verði aðstoðað með öðrum hætti en nú er gert, t.d.:

1. Með útgáfu matarkorta sem hægt væri að nota í verslunum?

2. Með útvegun á viðunandi húsnæði ef hitt stendur ekki til þannig að matargjafir þurfi ekki að fara fram utan dyra? Það er eins og komið sé fram við fólk eins og skepnur.

3. Mun hann beita sér fyrir breyttri forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu við 2. umr. þar sem því neyðarástandi sem þúsundir manna standa frammi fyrir verði mætt af alvöru? Svona ástand þarf fyrst og fremst að mæta grunnþörfum fólks um mat og húsnæði og áhugamál eins og t.d. hestamennska eða trúarhefðir, þótt menningartengd séu, verða að mæta afgangi.