139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

jarðhitaréttindi í ríkiseigu.

[10:58]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og ég ítreka mikilvægi þess að skýr niðurstaða komist í þessi málefni hið allra fyrsta. Það er óhætt að segja að það er ákveðin biðstaða og óvissa sem ríkir meðan þessi lagarammi er ekki kláraður.

Í mínum huga eru það fjögur lykilatriði sem þurfa að liggja skýrt fyrir í nýjum lögum: Tryggja verður að sanngjarnt og eðlilegt afgjald sé greitt fyrir nýtingarrétt orkuauðlinda í almannaeigu. Tryggja verður jafnframt að sérstök skattlagning á orku eða orkumannvirki verði ekki til þess að rýra möguleika á innheimtu eðlilegs afgjalds fyrir nýtingarréttinn. Tryggja verður eðlilega samkeppni um nýtingarréttinn og skýr ákvæði verða að vera um hámarkslengd samninga og framlengingarákvæði. Þetta eru allt afar mikilvæg atriði sem er þörf á að festa í lagaramma hið fyrsta.