139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

álver á Bakka.

[11:01]
Horfa

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef setið í iðnaðarnefnd þessar tvær vikur mínar hér á Alþingi og það kom mér nokkuð á óvart að sjá frétt Stöðvar 2 þann 18. október þar sem hæstv. iðnaðarráðherra lætur í veðri vaka að stóriðja á Bakka sé nánast handan við hornið. Á fundi sem hv. iðnaðarnefnd átti með Landsvirkjun þann 13. október kom skýrt fram að það væri óframkvæmanlegt að byggja 250 þús. tonna álver á Bakka. Landsvirkjun sagðist þá eingöngu vilja ábyrgjast orku fyrir 125 þús. tonn, hugsanlega 180 þús. tonn ef álverið kæmi til móts við það varðandi ábyrgð og áhættu á þeim 55 þús. tonnum sem ber í milli.

Á þessu svæði hafa menn lagt mikið á sig til að koma af stað nýjum atvinnutækifærum. Það hefur gengið misvel og mér finnst því sérstaklega mikilvægt að farið sé varlega í að fullyrða að slík verkefni séu á leiðinni ef ekki er forsenda fyrir því. Ég spyr því hæstv. iðnaðarráðherra hvort einhverjar nýjar upplýsingar liggi fyrir um orkuöflun á svæði Þeistareykja, Bjarnarflags og Kröflu eða annarra svæða sem geri það að verkum að möguleikar á stóriðju á Bakka verði að veruleika.