139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

aðstoð við fátæka -- mál á dagskrá.

[11:34]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera aðra tilraun til að reyna að greiða fyrir þingstörfum vegna þess að þessi umræða sem farið hefur fram í töluvert langan tíma skilar engu, hún er ekki fólki sem á um sárt að binda til framdráttar eða þinginu eða öðrum þjóðþrifamálum.

Hér eru menn farnir að ræða efnislega um stjórnlagaþing og efnislega um aðild Íslands að Evrópusambandinu o.s.frv. Ég tel að við eigum að spara okkur slíkar umræður undir þessum lið og ég legg til, úr því að hæstv. utanríkisráðherra er reiðubúinn til að ræða þetta mál, sem er verið að óska eftir að verði tekið til umræðu, að hæstv. forseti verði við þeirri beiðni þannig að við getum sparað okkur umræður um fundarstjórn forseta og þeir sem vilja taka þátt í umræðunni um þjóðaratkvæðagreiðslu geri það í umræðunni síðar í dag í umræðu um það mál en ekki annað.