139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

áform um breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

[11:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef miklar áhyggjur af því á hvaða vegferð hæstv. sjávarútvegsráðherra er varðandi þessa almikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Maður spyr sig: Var skötuselurinn forsmekkurinn að því sem koma skyldi? Var hann forsmekkurinn að leikrænni tjáningu ráðherra gagnvart þingi og þeim sem í þessari grein starfa? Var sáttanefndin blekking? Var verið að blekkja okkur og plata sem tókum þátt í henni? Til hvers var hún sett af stað ef það er sífellt komið með aðrar útfærslur og aðgerðir? Ég velti fyrir mér: Var verið að plata okkur sem fórum í þá nefnd? Fyrningin er í raun hafin. Fari ráðherrann þá leið sem hann er að boða er hann að hefja þá fyrningu sem hann hefur m.a.s. lýst sig andsnúinn ef ég veit rétt. Það er enn stefnt að óvissu um sjávarútveginn. (Gripið fram í: Ég veit um …) Það er enn stefnt að því að auka óvissuna hjá þúsundum einstaklinga sem starfa í sjávarútvegi á sjó og í landi. Það er verið að stefna byggðunum í mikla óvissu.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra sem á hátíðarstundum talar fjálglega um byggðirnar tekur ekkert mark á því núna, gleymir því hvað hann hefur sagt. Það er búið að skerða atvinnuréttindi fólks úti um allt land í gegnum árin með niðurskurði á aflaheimildum og það á ekkert að koma til baka samkvæmt þessu. Hæstv. ráðherra er algjörlega á villigötum. Hann hefur ekki upplýst hversu mikið magn hann er með í huga. Hversu miklu ætlar hann að úthluta með þessu? Hversu mikið af kökunni á ekki að koma til þeirra sem búið er að skera? Á hvaða vegferð er hæstv. ráðherra? Ég spyr að því. Smábátasjómenn (Forseti hringir.) og talsmenn sjómanna eru æfir (Forseti hringir.) út af þeirri vegferð sem ráðherra er á.