139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

áform um breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

[11:53]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Íslenskur sjávarútvegur er í járnum, hann þarf nýjar lausnir. Atvinnugreinin skuldar næstum 600 milljarða kr. og það er gífurleg óánægja með kvótakerfið sem hefur skilið mörg byggðarlög eftir í flakandi sárum. Viðleitni stjórnvalda til að bregðast við og breyta kerfinu hefur mætt hörku og hótunum, samráð hefur verið langvarandi og erfitt. Atvinnuskilyrði kvótalausra útgerða fara síversnandi, skortur á leigukvóta hefur neytt marga til að binda báta sína við bryggjur. Við svo búið má ekki una lengur. Það þarf að bregðast við þessu ástandi, annars vegar að sjálfsögðu með þeim varanlegu breytingum sem boðaðar hafa verið á fiskveiðistjórnarkerfinu og er sérstakt verkefni út af fyrir sig og hins vegar núna með skammtímaráðstöfunum til að bregðast við bráðum vanda sem er vandi hinna kvótalausu útgerða sem eiga allt sitt undir leigukvóta á markaði sem er botnfrosinn. Þar er ekki aðeins um að ræða þá fáu einstaklinga sem seldu sig úr greininni á sínum tíma heldur þá fjölmörgu sem tilheyra þessu leiguliðakerfi í fyrirkomulagi sem er tvískipt. Það er annars vegar kerfi kvótahafanna og hins vegar hinna sem eiga allt sitt undir því að fá leigðan kvóta frá þessum aðilum.

Fyrningin er að sjálfsögðu ekki hafin. Það er verið að ræða það hér að auka við veiðiheimildir og það hefur verið kallað mjög eftir því að aukið verði við veiðiheimildir. Það er eðlilegt að sjávarútvegsráðherra bregðist við því kalli á einhvern hátt.

Hins vegar legg ég áherslu á það — um leið og ég fagna því að verið er að hugleiða það í alvöru að auka við veiðiheimildir og bæta þeim við á þann hátt (Forseti hringir.) að það verði tekið gjald fyrir sem er (Forseti hringir.) bara eðlilegt eins og nú árar — að við förum ekki í mikinn bútasaum (Forseti hringir.) á kerfinu heldur hugum að framtíðarbreytingu þess. Það er stóra verkefnið.