139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

flutningur á málefnum fatlaðra.

[12:16]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur kærlega fyrir þessa utandagskrárumræðu sem ber vott um þá nærgætni og þá umhyggju sem hún ber fyrir hagsmunum fólks með fötlun. Ég tek heils hugar undir það sem á auðvitað að vera kjörorð okkar á þessum tímamótum, þ.e. að hér reynum við að nálgast viðfangsefnið af metnaði, heiðarleika og bjartsýni.

Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, það komu nokkrar skarpar athugasemdir frá Ríkisendurskoðun um þjónustuna við fólk með fötlun og þá sérstaklega við eftirlitsþáttinn og kannski ekki hvað síst stefnumótunina vegna þess að þá voru menn að horfa til þess með hvaða hætti við gætum fylgst með því hvort menn stæðu við gefin fyrirheit.

Í framhaldi af þessari skýrslu, sem ber að fagna mjög, lét ég auðvitað setja í gang vinnu og við fórum yfir og brugðumst við athugasemdunum og settum í ákveðinn farveg með hvaða hætti ætti að vinna úr þessu. Það var gert í samráði við þá verkefnisstjórn sem hefur unnið að yfirfærslunni og þá sem hafa verið við borðið og unnið að málinu, bæði fulltrúa sveitarfélaganna og hagsmunaaðila. Það er mjög mikilvægt að allir þessir aðilar séu meðvitaðir um það hvaða veikleikar hafa verið í þjónustunni og með hvaða hætti þurfi þá að bregðast við þeim og gera þjónustuna betri við þá tilfærslu sem verið er að undirbúa.

Það er mikilvægt líka í þessu samhengi þegar verið er að tala um stefnumótun og þau atriði sem við þurfum að horfa til að þar hafa menn haft að leiðarljósi samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fólks með fötlun. Það eru afar metnaðarfull markmið og það skiptir mjög miklu máli að við reynum að innleiða allt það sem þar er og tryggja að þjónustan hér sé í samræmi við þau markmið. Nú er vinna í gangi við að reyna að undirbúa bæði lagasetningar og hluti sem tengjast þeim.

Það má líka nefna að nefnd sem skipuð var árið 2007 til að vinna tillögur um úrbætur á þjónustu við fólk með fötlun á heimilum sínum skilaði nýlega metnaðarfullum tillögum að reglugerð þar sem tekið er á mörgum framfaramálum í þjónustu við fólk með fötlun. Stefnt er að því að setja reglugerð um þessa þjónustu strax í kjölfar þess að frumvarp um breytingar á lögum um málefni fatlaðra frá 1992 hefur verið samþykkt. Það er verið að leggja lokahönd á frumvarpið sem verður væntanlega lagt fram á Alþingi á næstu vikum.

Í rauninni má segja að samstarfssamningurinn við sveitarfélögin liggi fyrir sem og lagafrumvörpin. Það er enn þá ágreiningur um stéttarfélagsaðild sem þarf að leysa úr, það er það eina sem stendur út af í málinu eins og er. Við áttum viðræður við fulltrúa SFR í gær en við þurfum að ræða betur við sveitarfélögin því að auðvitað má þessi yfirfærsla ekki stranda á því máli og ég treysti á að menn einhendi sér í að ganga frá því þannig að hægt sé að ljúka þessu með viðunandi hætti.

Eins og ég segi er réttmæt ábending frá Ríkisendurskoðun um að skort hafi á heildarstefnu í málefnum fatlaðra, þ.e. formlega stefnu þar sem hún liggi fyrir ráðuneytinu. Hún hefur ekki verið afgreidd formlega en auðvitað liggur fyrir ítarleg stefna engu að síður og það er þá okkar að samþykkja þessa formlegu stefnu og koma henni þannig á blað að menn viti við hvað er miðað og hvaða markmið hafa verið sett. Það hefur verið ákveðið að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi með aðgerðaáætlun til fjögurra ára líkt og hefur verið gert í öðrum málaflokkum, t.d. málefnum innflytjenda eða barna, og undirbúningur að slíkri þingsályktunartillögu mun fara fram í nánu samstarfi við heildarsamtök fatlaðra og sveitarfélögin. Í framhaldi af þessari umræðu hér er full ástæða til að kalla til fulltrúa stjórnarandstöðunnar og kynna þeim stöðuna í málinu, fara yfir þau lagafrumvörp sem eru tilbúin og þennan samstarfssamning þannig að stjórnarandstaðan geti að sjálfsögðu fylgst með gangi mála.

Það er vissulega mikilvægt að tryggja í þessu öllu saman að jafnræði notenda þjónustunnar verði fyrir hendi, það verði settir gæðastaðlar og mælikvarðar. Menn hafa verið að skoða þetta SIS-matskerfi og eru að innleiða það. Það er sérstök aðferð til að meta þjónustuþörf. Allt þetta skiptir mjög miklu máli ásamt því eftirliti sem fram fer í framhaldinu til að geta tryggt það að jafnræðis sé gætt í þjónustu hjá ólíkum sveitarfélögum í framhaldinu.

Ég fæ kannski tækifæri í lokin til að ræða málið betur en eitt af því sem er mjög mikilvægt líka er að formlegur aðili hafi eftirlit með framkvæmd yfirfærslunnar, þ.e. með tilfærslunni í heild. Þá er auðvitað, eins og ég segi, (Forseti hringir.) mikilvægt að það sé á höndum einhvers sem er utan (Forseti hringir.) ráðuneytisins og getur fylgst mjög vel með hvernig (Forseti hringir.) að málum er staðið.