139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

flutningur á málefnum fatlaðra.

[12:24]
Horfa

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga málefni — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti minnir hv. þingmann á að nefna aðra þingmenn fullu nafni.)

Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrirgefðu. Ég fagna því að nú sé þessi málaflokkur að fara til sveitarfélaganna þar sem það hefur legið fyrir allt síðan 1992, að mér skilst, þegar lög þar að lútandi voru samþykkt á Alþingi. Sveitarfélögin eiga að taka við málefnum fatlaðra nú um áramótin og hafa nú þegar nokkur sveitarfélög skrifað undir samning þar að lútandi. Enn er þó mikil vinna fram undan hjá ráðuneytinu ef tekið er mið af skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða sem unnin var núna í ágúst 2010.

Það er mjög mikilvægt, eins og fram hefur komið, að tekið verði tillit til þeirra ábendinga sem þar koma fram og að vinnan við endurbætur verði markviss og skipulögð. Ég fagna því sem kemur fram í þessari skýrslu að þar eigi að fara fram árlegt mat á þjónustuþörf fyrir þennan málaflokk og að sveitarfélög fái fjárveitingar eftir því mati. Nú er verið að innleiða nýtt þjónustumatskerfi hjá sveitarfélögum og því mjög mikilvægt að hefja vinnu við fjárhagsáætlanir byggðar á þjónustuþörfum einstaklinga hvers svæðis út frá því kerfi sem allra fyrst.

Ég tel einnig mikilvægt skref hafa verið tekið þegar ákveðið var að fara yfir stöðu mála og skoða hvernig tekist hafi til 2014 til að sveitarfélög fái tíma til að aðlagast þeim verkefnum sem verið er að leggja fyrir þau. Mér sýnist allir vera mjög meðvitaðir um þá vinnu sem fram undan er.