139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

81. mál
[17:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Örstutt vegna þess máls sem hæstv. utanríkisráðherra hefur mælt fyrir. Eins og kom fram í máli hans er rétt að umrædd þingsályktunartillaga um fríverslunarsamning við Lýðveldið Kólumbíu var hér til umfjöllunar á síðasta þingi. Hún kom til meðferðar í utanríkismálanefnd sem lauk ekki yfirferð málsins. Það komu fram ýmsar athugasemdir sem ég vildi árétta hér og lutu einkum og sér í lagi að meðferð mannréttindamála í Kólumbíu sem menn vildu fara betur yfir. Það er líka rétt sem hér hefur komið fram að m.a. í Noregi voru athugasemdir við þennan fríverslunarsamning fyrst og fremst vegna þessara þátta. Hæstv. utanríkisráðherra hefur lýst því í framsöguræðu sinni að gerð hafi verið bragarbót á vissum þáttum að því er þetta atriði snertir. Við munum að sjálfsögðu skoða það í hv. utanríkismálanefndar með hvaða hætti það hefur verið gert og afla upplýsinga um það.

Almennt vil ég segja að ég tel að það sé jákvætt fyrir okkur að gera fríverslunarsamninga, hvort sem það eru tvíhliða samningar eða samningar í gegnum aðild okkar að EFTA. Hugsunin er að sjálfsögðu fyrst og fremst að greiða fyrir viðskiptum á milli ríkja þannig að báðir aðilar hafi gagn af því. Ég tel að það sé að sjálfsögðu gert með þeim samningi sem hér er til umfjöllunar en við höfum haft þá reglu að gerðar eru ákveðnar kröfur til þeirra ríkja sem við gerum samninga við, sérstaklega að því er varðar lýðræði og mannréttindi. Um fleiri atriði hefur svo sem verið fjallað og m.a. á vettvangi EFTA, til dæmis hvort gera eigi kröfur varðandi umhverfismál, náttúruvernd og slíka hluti þó að það hafi ekki ratað inn í svona samninga, að því er ég best veit hingað til.

Þetta eru atriði sem þarf vissulega að skoða og við munum gera það á vettvangi nefndarinnar.