139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[14:27]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Já, mér er full alvara þegar ég segi að hér hefur náðst mikill og verulegur árangur í efnahagsmálum. Tölur tala sínu máli um það sem ég ætla ekki að fara yfir aftur.

Það er alveg ljóst að við erum að greiða í vaxtakostnað 75 milljarða kr. á ári og þess vegna þurfum við að fara töluvert hart í niðurskurðinn og höfum þurft að koma með skattahækkanir. Það er alveg blóðugt að þurfa að borga svona mikið í vexti — og ég held að hv. þingmaður hljóti að taka undir það með mér — sem samsvarar öllum útgjöldum til aldraðra og öryrkja og öllum útgjöldum sem fara í að reka Landspítalann. Ef við slökum eitthvað á í þessu efni kostar það bara hærri vaxtareikning fyrir þjóðina. Og hverjir fara verst út úr því? Það er láglaunafólkið, það er fólkið með litla peninga á milli handanna.

Þess vegna erum við að biðja um samvinnu við stjórnarandstöðuna um að ná saman um að við komum okkur sem fyrst út úr þeim vanda sem við erum í. Umræðan hefur þennan hálftímann farið í að ræða atvinnumálin og ég hef farið yfir það hvað ríkisstjórnin er að gera í þeim efnum sem snúa bæði að ýmsum stórum verkefnum, ýmsum verkefnum sem snerta nýsköpun og hugverkaiðnaðinn. Það er líka alveg ljóst að störfum er tekið að fjölga hér. Markmiðið sem við settum okkur í þeim tillögum sem við vildum setja fram við stjórnarandstöðuna, að ná hagvextinum á næsta ári upp í 3–5%, verður erfitt en það er hægt ef menn taka höndum saman.

Ég hef virkilega áhyggjur af atvinnuleysinu, ekki síst langtímaatvinnuleysinu. Til dæmis erum við sérstaklega að skoða núna tillögur (Forseti hringir.) um úrbætur í atvinnumálum á Suðurnesjum. 75% af því fólki sem er atvinnulaust eru bara með grunnskólamenntun og við erum með prógramm sem við vildum ræða við stjórnarandstöðuna einmitt um (Forseti hringir.) vinnumarkaðsaðgerðir fyrir þá sem eru atvinnulausir.