139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[14:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra kveinkar sér undan því að ríkissjóður þurfi að borga 73 milljarða (Gripið fram í: 75 milljarða) á árinu vegna vaxtagreiðslna, vaxtabyrðin sé svona slæm. Hvað vorum við að ræða hér fyrir rúmu ári? Jú, það voru vextir vegna svokallaðra Icesave-samninga sem ríkisstjórnin hafði forgöngu um og áttu að kosta 42 milljarða á árinu 2009 og annað eins árið 2010. Hvar er verkstjórnin hjá hæstv. forsætisráðherra? Hver væri staða ríkissjóðs í dag ef Alþingi hefði samþykkt þessa hryllilegu samninga, vil ég kalla þá? Hver væri staðan í dag? [Kliður í þingsal.] Ætli við hefðum ekki hreinlega þurft að leggja niður velferðarþjónustu víðs vegar um landið í miklu meira mæli en þessi norræna velferðarstjórn ætlar sér að gera?

Ég vil að lokum segja að þessi ríkisstjórn hefur ekki unnið neitt kraftaverk fyrir fólkið í landinu, (Forseti hringir.) fyrir atvinnulífið í landinu. Þessi ríkisstjórn er komin að fótum fram, hún hefur enga forustu og ekkert traust og Íslendingar (Forseti hringir.) eiga allt annað og betra skilið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)