139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

Afbrigði um dagskrármál.

[11:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingheimi fyrir, eins og lítur út fyrir að verði hér á atkvæðatöflunni, að veita afbrigði fyrir þessu máli. Það var samkomulag um það á fundi þingflokksformanna í gær að greitt yrði fyrir þessu með afbrigðum hér. Ég verð að segja að ég er ekki sammála hv. þm. Margréti Tryggvadóttur þegar hún kemur með þessar athugasemdir. Ég skil vel að hún vilji kynna sér þessar tillögur, ég er ekki að gera athugasemdir við það, heldur er það þannig að við erum hér með mál sem snertir það sem er brýnast í því sem við eigum að vera að ræða. Við sjálfstæðismenn erum með tillögur, okkar innlegg í þá umræðu um hvernig við eigum að leysa vanda heimilanna, atvinnulífsins og koma íslenskri þjóð og íslensku þjóðfélagi aftur á fætur eftir það efnahagsáfall sem við urðum fyrir. Þetta eigum við að vera að ræða, þessi verkefni eigum við að taka höndum saman um hér á þinginu og ræða, og ekki bara ræða (Forseti hringir.) heldur leysa. Ég fagna því, og þakka sérstaklega fyrir það, að þingheimur ætlar að greiða fyrir þessu máli.