139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[13:14]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Sigurður Ingi Jóhannsson, Guðmundur Steingrímsson, Siv Friðleifsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Baldvin Jónsson.

Lagagreinin er svohljóðandi:

„Við 10. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: ef hann af ásetningi gefur Alþingi rangar upplýsingar eða við meðferð máls á Alþingi leynir upplýsingum.“

Lagt er til að lög þessi taki strax gildi við samþykkt Alþingis.

Þessu frumvarpi er ætlað að setja inn í lög um ráðherraábyrgð viðurlög við því ef ráðherra segir Alþingi ósatt, gefur Alþingi rangar upplýsingar eða leynir upplýsingum við meðferð máls á Alþingi. Frumvarp sama efnis var lagt fram af hv. þm. Páli Péturssyni á 116. löggjafarþingi og að gefnu tilefni þykir ástæða til að leggja þetta fram að nýju, að hluta til með hliðsjón af skýrslu vinnuhóps um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis, ályktun og tillögum þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þá sérstaklega með hliðsjón af viðauka við þá skýrslu frá Bryndísi Hlöðversdóttur um yfirferð á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á atriðum sem gefa tilefni til viðbragða af hálfu þingsins.

Þegar þingsályktunartillaga var lögð fram þar sem lagt var til að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir, og umræða stóð á sama tíma um skýrslu þingmannanefndarinnar, beindu ýmsir spurningum til þeirra þingmanna sem lögðu þá þingsályktunartillögu fram, hver væri ástæðan fyrir því að menn væru að nota lög sem þeir legðu jafnframt til að yrðu endurskoðuð. Í svörum mínum tók ég fram að ég væri að meginefni sátt við lög um ráðherraábyrgð en ástæðan fyrir því að ég hefði samþykkt að setja inn þá setningu í tillögum þingmannanefndarinnar væri sú að ég vildi sjá þetta ákvæði bætast við, að viðurlög væru við því ef ráðherra lýgur að þinginu, gefur þinginu rangar upplýsingar af ásetningi, ekki óviljandi heldur af ásetningi. Þess vegna tók ég mig til og fann þetta frumvarp sem hafði verið lagt fram að meginefni af Páli Péturssyni.

Í þessum skýrslum og tillögum var mjög mikið talað um að mikilvægt væri að tryggja upplýsinga- og sannleiksgildi ráðherra þannig að þetta væri ákveðinn grundvöllur fyrir því að þingmenn gætu sinnt störfum sínum, að ráðherrar væru að gefa þeim sem réttastar upplýsingar — og voru lagðar til fjórar meginbreytingar til að tryggja einmitt þessa upplýsinga- og sannleiksskyldu.

Í fyrsta lagi var lagt til að mælt yrði fyrir um sannleiks- og upplýsingaskyldu í stjórnarskránni sjálfri og að 54. gr. hennar yrði breytt í þá veru að kveðið yrði á um að ráðherra væri skylt að svara fyrirspurnum og beiðnum alþingismanna um skýrslur. Um þá skyldu er ekki mælt fyrir í gildandi ákvæði þótt hana megi leiða af ákvæðum þingskapalaga. Það er sem sagt verið að leggja til að gefa þessu aukið vægi með því að þetta verði skýrara í stjórnarskránni.

Í öðru lagi er því velt upp, í þessum skýrslum sem ég nefndi hér áðan, hvort brot á upplýsingaskyldu ráðherra eigi að vera refsiverð samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð. Þá komu fram tvö sjónarmið. Annars vegar að eðlilegt sé að brot ráðherra gegn upplýsingaskyldu til þingsins varði refsingu en slíkt er sagt samræmast dönskum rétti. Hins vegar kemur einnig fram það sjónarmið að ekki sé sjálfgefið að lögfesting upplýsinga- og sannleiksskyldu kalli á að brot á því verði gert refsivert.

Við þingmenn höfum, svo að dæmi sé tekið, verið að fá ábendingar um að fjármögnunarfyrirtæki tilgreini ekki hvort samningar hjá þeim séu verðtryggðir eða ekki. Neytendastofa hefur gert athugasemdir við þau vinnubrögð en bendir síðan á að framkvæmdarvaldið hafi raunar engin úrræði til að takast á við þetta, heldur verði að láta reyna á hugsanlega skaðabótaskyldu fyrir dómstólum. Ástæðan fyrir því að ég legg þetta mál fram er sú að ég tel mjög mikilvægt að viðurlög séu við þessu, að það varði við lög um ráðherraábyrgð að þinginu sé sagt ósatt.

Í þriðja lagi var talað um að reglur um rétt þingsins til upplýsinga og gagna frá stjórnsýslunni verði líka skýrður í þingskapalögum. Í fjórða lagi að skýrt verði í þingskapalögum að hvaða marki upplýsingar um starfsemi hlutafélaga, sem eru að hluta eða að fullu í eigu ríkisins, teljist vera opinbert málefni.

Varðandi þau atriði sem ég nefndi hefur forseti Alþingis þegar tekið tillit til nokkurra þeirra og lagt fram frumvarp um breytingar á þingskapalögum. Það mál var 686. mál á 138. löggjafarþingi. Ég held að ekki sé búið að leggja fram það frumvarp aftur en stefnt er að því að leggja það fram á þessu þingi líka, það var kynnt fyrir þingflokkunum og beðið um athugasemdir í framhaldi af þeirri framlagningu.

Það hefur hins vegar ekki komið fram frá stjórninni eða fulltrúum stjórnarflokkanna, og ekki frá forseta heldur, að koma til móts við þær tillögur um breytingar á stjórnarskránni og breytingar á lögum um ráðherraábyrgðina. Þó má gera ráð fyrir því, þar sem við erum að fara að kjósa til stjórnlagaþings 27. nóvember, að þetta verði eitt af því sem stjórnlagaþingið muni skoða sérstaklega, þ.e. sannleiks- og upplýsingaskylda ráðherra gagnvart þinginu og væntanlega einnig hvernig taka eigi á ráðherraábyrgðinni almennt. Skoðanir hafa verið skiptar um það hvort hafa eigi sérstakan dómstól fyrir ráðherra eða ekki eins og er samkvæmt núverandi stjórnarskrá.

Lög um ráðherraábyrgð, eins og þau eru í dag, taka ekki til ábyrgðar ráðherra gagnvart Alþingi ef hann greinir því rangt frá eða leynir það upplýsingum. Þar með tel ég að ráðherrar hafi ekki nauðsynlegt aðhald og geti freistast til að gefa Alþingi rangar upplýsingar eða leyna það mikilvægum upplýsingum. Þetta getur leitt til mjög óvandaðra mála og orsakað fullkominn trúnaðarbrest milli Alþingis og ráðherra. Við sáum kannski mjög drastísk dæmi um þann trúnaðarbrest sem var ekki bara á milli Alþingis og ráðherra heldur á milli ríkisstjórnar, ráðherra og þjóðarinnar þegar þjóðin upplifði það trekk í trekk að ráðherrar komu í aðdraganda hrunsins, bankahrunsins, og sögðu þeim ósatt í fjölmiðlum.

Í dönskum lögum um ráðherraábyrgðina eru mjög skýr ákvæði um þetta atriði. Það er mjög mikilvægt fyrir þingmenn að geta treyst því að þær upplýsingar sem ráðherrar gefa því séu fullnægjandi og séu sannleikanum samkvæmar og að ráðherrar leyni ekki upplýsingum sem hafa verulega þýðingu við meðferð máls.

Af þessu tilefni vil ég líka benda á að sumir hafa sagt að ráðherrar, bara vegna öryggis ríkisins, heill ríkisins, eigi, vegna þess hve viðkvæmar upplýsingar þeir fást við, stundum erfitt með að svara beint þeim spurningum sem er beint til þeirra. Þá vil ég vísa til þeirrar umræðu sem var fyrir stuttu þar sem verið var að spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í gang mála varðandi stjórnarskrárvinnu eða grunnsáttmála NATO. Í svörum ráðherrans kom fram að hann taldi sig ekki geta skýrt nákvæmlega frá þeim trúnaðarupplýsingum sem hann hafði fengið hér í þingsal, en kom þá á móti og bauðst til að skýra það fyrir utanríkismálanefnd sem er þá með ákveðinn trúnað. Það sama ætti þá að gilda varðandi aðrar þingnefndir að ef upplýsingarnar eru það viðkvæmar að ekki sé hægt að skila þeim í skriflegum svörum eða hér í fyrirspurnatímum geti ráðherra þá komið á fund nefndar og þá gildi fullkominn trúnaður um þær upplýsingar, eða ráðherra segi það einfaldlega að vegna þess hve viðkvæmar upplýsingarnar séu geti hann því miður ekki svarað þessari spurningu. — Þetta yrði þá liður 10. gr. c og raunar á þá við sömu refsiákvæði og eru núna í 11. gr. laganna.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið fari til allsherjarnefndar til meðferðar.