139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[13:25]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi farið í gegnum það í ræðu minni hvert hið gefna tilefni væri, til hliðsjónar eru skýrsla vinnuhóps um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis, ályktun og tillögur þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þá sérstaklega skýrsla Bryndísar Hlöðversdóttur um yfirferð á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á atriðum sem gefa tilefni til viðbragða af hálfu þingsins.

Ég fór líka í gegnum það í ræðu minni að ég hefði ítrekað fengið fyrirspurnir þegar við vorum að fjalla um landsdómsmálið hver væri ástæðan fyrir því að ég samþykkti að setja þar inn, sem hluti af þingmannanefndinni, að endurskoða ætti lög um ráðherraábyrgð. Þetta er ástæðan. Þetta er hið gefna tilefni. Ég taldi að þetta ætti að vera í lögunum.

Hvað það varðar að ráðherra eigi þá bara að segja af sér. Ég kannast ekki við það að það hafi verið sérstaklega mikið um það að íslenskir ráðherrar hafi sagt af sér. Hugtakið „að axla pólitíska ábyrgð“ á Íslandi hefur fyrst og fremst verið fólgið í því að segjast axla ábyrgð en minna verið um einhverja eftirfylgni við það.

Hluti af þessu var líka í Tamíla-málinu í Danmörku. Rætt var um, að því er mig minnir, að ákæra Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, vegna þess að hann gaf þinginu rangar upplýsingar í aðdraganda Tamíla-málsins. Ég talaði líka um það í ræðu minni, og það væri ágætt ef hæstv. utanríkisráðherra mundi hlusta aðeins betur, að þjóðinni hefði verið sagt ósatt, ekki Alþingi. Hins vegar var þinginu haldið fyrir utan það ferli sem hér var í gangi. Sumir þingmenn sem sátu á því þingi hafa sagt að þeir hafi nánast — ég held það hafi verið hæstv. forseti sem orðaði það svo — verið hér (Forseti hringir.) eins og á afgreiðslukassa, að þeir hafi haft mjög lítið með stjórnun landsins að gera, ekkert frekar en starfsmaður sem vinnur á afgreiðslukassa hefur með það að gera hvað viðskiptavinurinn kaupir í kvöldverð.