139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[14:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður svaraði nú að hluta til því sem ég ætlað að spyrja hann um. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa upp úr ræðu sem hæstv. fjármálaráðherra flutti 3. júní 2009. Þar segir:

„Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga […].“

Síðan segir hæstv. ráðherra í ræðu 5. júní, þ.e. tveimur dögum síðar, með leyfi forseta:

„Síðdegis í gær varð sú framþróun í þessum viðræðum að þá fór að líta út fyrir að mögulega gæti náðst lending.“

Þennan dag, 5. júní, komu fulltrúar fjármálaráðherra inn í þingflokka og fóru yfir mikinn blaðabunka sem var þessi svokallaði Icesave-samningur.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að málflutningur sem þessi gæti fallið undir þá skilgreiningu sem boðuð er í frumvarpinu sem við erum að fjalla um, í ljósi þess að við þingmenn höfum lagt mikið á okkur við að kynna okkur Icesave-samningana og öll þau gögn þar á bak við og hvað þeir hafa í för með sér; þverhandarþykka bunka af pappír.

Er líklegt að á milli 3. og 5. júní hafi orðið slík breyting sem hér var lýst en hæstv. ráðherra og þeim sem unnu að málinu hafi ekki verið kunnugt um hver niðurstaðan gæti orðið?