139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[14:51]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ítreka fyrra svar mitt við þessari fyrirspurn áðan. Við getum tínt til ótal dæmi í þessa veru ef okkur langar til þess. Ég nefndi hér nokkur dæmi áðan en er þetta mál byggt á því? Stendur þetta mál og fellur með því hvernig ég svara tiltekinni spurningu sem hv. þingmaður spyr? Ég svaraði henni skýrt hér áðan, bara mjög skýrt.

Það sem vakti athygli mína er hins vegar frammíkall í þingsal — ég var nú að vona að sá leiði vani yrði aflagður hér að saka menn um að vinna gegn þjóð sinni hér í þessum sal. Þegar síðasti ræðumaður taldi mig nú hafa verið að reyna að vinna þjóð minni gagn, m.a. í því máli sem hér var rætt um, Icesave-málinu, gjammaði þá ekki hv. þm. Pétur H. Blöndal fram í og sagði: Nei, ekki fyrir þjóð sína. Ég var sem sagt að vinna gegn þjóðinni. Það jaðrar við drottinssvik úr þessum sal. Ég ætlast til að hv. þm. Pétur H. Blöndal komi í þennan ræðustól hér á eftir og biðji mig afsökunar á þessum orðum sínum og verði þá meiri maður á eftir. (Gripið fram í: … ljúka umræðunni.)