139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

HS Orka.

[15:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um mál sem snertir kannski ekki hans daglega verksvið. Hann er hins vegar mikill áhugamaður um málið sem fyrrverandi iðnaðarráðherra og af því að hann er helsti talsmaður Samfylkingarinnar í ríkisstjórn við þennan fyrirspurnatíma hef ég ákveðið að beina máli mínu til hæstv. utanríkisráðherra.

Þetta snertir HS Orku og þá vinnu sem ríkisstjórnin hefur verið í við að reyna að leysa úr ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar um heimild HS Orku til fjárfestingar í Magma Energy og tilkynningu þar um. Í Fréttablaðinu 1. nóvember er fjallað ítarlega um nefnd sem ríkisstjórnin skipaði á sínum tíma til að leiða það til lykta innan ríkisstjórnarinnar hvort þetta hafi verið leyfilegt eða ekki og hvort hægt sé að taka fyrirtækið eignarnámi. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að niðurstaða nefndarinnar verði líklega ekki þess eðlis. Þrátt fyrir það segir formaður þingflokks Vinstri grænna í sama blaði 3. nóvember ríkisstjórnina eiga að taka um það pólitíska ákvörðun hvort heimilt verði að fara þessa eignarnámsleið þrátt fyrir að nefnd um erlenda fjárfestingu hafi þrívegis komist að þeirri niðurstöðu að það brjóti lög.

Mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sé sammála þingmanninum um að þetta sé pólitísk ákvörðun, hvort hann telji það tæpt að ríkisstjórnin taki slíka ákvörðun um eignarnám, (Forseti hringir.) jafnvel þótt umrædd nefnd hafi þrívegis skilað annarri niðurstöðu, og síðan vildi ég að lokum spyrja hæstv. utanríkisráðherra um afstöðu hans til þessa máls.