139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

HS Orka.

[15:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tel að það sé rétt hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að ef á að fara þá leið að taka eignarhlutinn eignarnámi hljóti ríkisstjórnin að beita sér fyrir því. Nú verð ég að viðurkenna fyrir hv. þingmanni að ég hef ekki skyggnst jafn vel í innviði nefndarinnar sem nú er að störfum og hv. þingmaður. Ég veit ekki hvað hún er að hugsa eða að hvaða niðurstöðu hún hefur komist en ef það er rétt sem hv. þingmaður hefur eftir nefndinni, sem þó hefur ekki skilað af sér, að lagabreytingu þurfi til að gera það er augljóst að það er langlíklegast að ríkisstjórnin þurfi að hafa atbeina að henni.

Að því er varðar síðan mínar eigin skoðanir á því hafa þær fyrir löngu komið fram. Ég tel það ákaflega óheppilegt. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé góð aðferð að ríkið hlutist með þeim hætti til um lyktir mála. Ástæðan er sú, eins og allir vita og eru engar fréttir, að íslenskt samfélag býr við mikla efnahagsörðugleika núna. Við stöndum núna frammi fyrir því að ríkissjóður þarf að herða að sjálfum sér og menn leita í hverri smugu að leiðum til að draga úr fjárútlátum ríkisins.

Ég ímynda mér að óathuguðu máli að ríkisvaldið gæti farið þessa leið með samþykki Alþingis en það mundi kosta mjög háar upphæðir og sem hagsýnn húsbóndi sé ég ekki það fé liggja á lausu. Þess vegna tel ég miklu betra að þetta deilumál verði leitt til lykta með öðrum hætti eins og menn hafa t.d. rætt um, hugsanlega með aðkomu lífeyrissjóða sem gætu tekið hlut í þessu fyrirtæki. Ég tel reyndar að það mundi styrkja fyrirtækið.