139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar og svör við fyrirspurnum.

[15:39]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmenn gera hér að umtalsefni ákvörðun ráðherra um að taka rækju út úr kvóta á nýbyrjuðu fiskveiðaári. Ákvörðunin hefur verið skýrð og rökstudd. Við höfum átt um það umræður á Alþingi utan dagskrár.

Hitt er hins vegar alveg hárrétt að hv. þm. Jón Gunnarsson hefur lagt fram fyrirspurn um mál þessu tengt og beðið um skriflegt svar. Mér þykir leitt að henni hafi ekki verið svarað enn en svarið mun koma alveg á næstunni, mjög fljótlega.

Varðandi efnislega umræðu um hvort það hafi skaðað Byggðastofnun að hún hafi veitt veð í óveiddum rækjukvóta o.s.frv., hef ég áður rætt þau mál á þingi og hef engu við þau að bæta.