139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

mál á dagskrá.

[16:26]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svör hennar og útskýringar af hverju ekki var hægt að svara þessu. Hins vegar kom fram í svari hæstv. forsætisráðherra þegar ég spurði um þetta síðast á 137. löggjafarþingi, 12. ágúst 2009, að þá var einmitt búið að fela viðskiptaráðherra að vinna þetta enn frekar og ráðherrann talaði um að þetta mundi vonandi koma hlutunum á hreyfingu.

Nú virðist vera að þetta sé komið í hendurnar á félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Ég skil eiginlega ekki hver er ástæðan fyrir því að það hefur tekið þennan ofboðslega tíma bæði hjá þessari ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnum að taka saman hver er raunverulegur framfærslugrunnur fyrir íslenskar fjölskyldur.

Svo ég vitni í hæstv. forsætisráðherra, þegar hún sagði árið 2006, með leyfi forseta:

„Hér á landi er þetta allt i einum hrærigraut. Hið opinbera tekur mið (Forseti hringir.) af a.m.k. fimm mismunandi framfærslugrunnum við ákvörðun bóta.“

Þetta er eitthvað (Forseti hringir.) sem stjórnkerfið hefur vitað af í langan tíma þannig að ég skil ekki alveg hver ástæðan sé fyrir því að það tekur svona langan tíma að fá svör.