139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

sjálfbærar samgöngur.

68. mál
[17:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir þau svör sem hann gefur hér. Ég fagna því að það sé í undirbúningi samgönguáætlunar til tólf ára að leggja sérstaka áherslu á að vinna grunnnet göngu- og hjólreiðastíga. Sömuleiðis mundi ég vilja leggja áherslu á það að þess sæi stað í nýrri samgönguáætlun að mikil áherslubreyting væri yfir á almenningssamgöngurnar almennt, bæði í þéttbýli en eins í dreifbýli.

Ég vek aftur athygli á því sem kom fram hér í máli mínu áðan að ný könnun sem unnin hefur verið á ferðavenjum sýnir þær breytingar sem orðið hafa frá árinu 2008 að fólk leggur nú almennt meiri áherslu á bættar almenningssamgöngur og bætta göngu- og hjólreiðastíga.

Ég tel að það geti verið gott veganesti fyrir ráðuneytið í vinnu áfram og fagna því að sérstaklega er rætt um samstarf við sveitarfélögin og landshlutasamtökin í þessu efni. Þau hafa mikið fram að færa og vita nákvæmlega hvar skórinn kreppir.

Ég vil líka minna hæstv. samgönguráðherra á að á síðasta þingi flutti ég frumvarp um almenningssamgöngur sem fékk umfjöllun í samgöngunefnd. Samgöngunefnd lagði síðan til að því frumvarpi yrði vísað til ríkisstjórnarinnar með jákvæðri umsögn þannig að ég lít svo á að sú afgreiðsla Alþingis, að vísa því frumvarpi til ríkisstjórnarinnar, með þeirri umsögn sem því fylgdi, þýði að það sé ætlun Alþingis eða ósk Alþingis að ráðuneytið vinni áfram með það frumvarp. Ég hvet til þess að ráðherrann horfi sérstaklega til þess. Það komu fram ýmsar ábendingar í umsögnum um það frumvarp, um hluti sem betur mættu fara, en efnislega stendur það fyrir sínu. Ég hvet ráðherrann eindregið til að láta skoða það gaumgæfilega í ráðuneytinu.