139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Kjarni efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar felst í samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Að sönnu var stefnan mótuð upphaflega í tíð síðustu ríkisstjórnar en síðan hefur þessi samningur verið endurskoðaður þrívegis af núverandi stjórnvöldum. Stefnan sem nú er við lýði er þess vegna sú stefna sem ríkisstjórnin hefur markað.

En hver er staða samstarfssamnings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnarinnar núna eftir þriðju endurskoðunina? Ég leitaði eftir svörum um það hjá hæstv. forsætisráðherra í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær. Svar hæstv. ráðherra var mjög skýrt. Málið var borið upp á ríkisstjórnarfundi 3. ágúst sl. Ríkisstjórnin stendur öll að málinu. Það þýðir því ekki lengur fyrir einstaka ráðherra að þvo hendur sínar af þessu máli eins og við höfum séð tilburði til af ráðherrabekkjunum.

Hvað þingflokkana varðar sérstaklega greindi hæstv. forsætisráðherra enn fremur frá því að það hefði verið sérstaklega kynnt í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Í framhaldi af því upplýsti hv. þm. Lilja Mósesdóttir okkur um að málið hefði þrátt fyrir þetta ekki verið borið undir hennar þingflokk, þ.e. VG, og að nokkrir þingmenn flokksins hefðu mótmælt málsmeðferðinni.

Þá vaknar spurningin: Hver er eiginlega staða málsins? Gleymum því ekki að við erum hér að tala um sjálft hryggjarstykkið í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta er í raun og veru stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, hvorki meira né minna. Er það þá þannig að sjálf efnahagsstefnan sé ekki rædd og ákvörðuð í þingflokki annars stjórnarflokksins og hvað þýðir það á mannamáli að tilteknir þingmenn mótmæli málsmeðferðinni? Styðja þeir þá ekki málið? Voru þeir t.d. andsnúnir því að þriðja endurskoðunin færi fram eða lýstu þeir andstöðu við tiltekna efnisþætti málsins?

Telur hv. þingmaður að leita hefði átt álits þingflokka stjórnarflokkanna áður en gengið var frá málinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn?