139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

áframhaldandi samstarf við AGS -- gagnaver -- kostnaður við þjóðfund o.fl.

[14:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið athyglisvert að hlusta á þessa umræðu. Ég vil sérstaklega vekja athygli á einu sem sýnir kannski atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar í hnotskurn.

Nú í nokkur missiri eru bæjaryfirvöld á Reykjanesi og forustumenn þar búnir að vekja athygli á mjög alvarlegri stöðu í atvinnumálum. Þeir hafa farið fram á að fá að nýta þau tækifæri sem þar eru til staðar til að skapa tekjur — tekjur og störf fyrir fólkið á svæðinu, tekjur fyrir sveitarfélögin, tekjur fyrir ríkissjóð. Hér hefur komið fram að þetta eru ekki bara tækifæri varðandi orkufrekan iðnað eins og í Helguvík og gagnaverin heldur eru líka tækifæri á Keflavíkurflugvelli og sömuleiðis á því sviði sem við þurfum kannski helst á störfum að halda, í heilbrigðisþjónustunni. Við erum með nýjasta og besta spítalann á þessu svæði og skurðstofur sem ekki fást leigðar út til að skapa gjaldeyristekjur og störf fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Loksins mæta forustumenn ríkisstjórnarinnar til fundar. Hver er niðurstaðan, virðulegi forseti? Jú, það á að setja safn á laggirnar, hermangarasafn. [Hlátur í þingsal.] Nú væri allt í lagi, virðulegi forseti, ef gamlir herstöðvarandstæðingar sem eru í ríkisstjórn væru þarna upp frá og hættu þeim störfum sem þeir eru í núna. En ég efast um að það sé meiningin, virðulegi forseti. Í stað þessa ætti að gefa fólkinu tækifæri til að skapa tekjur, störf fyrir sjálft sig og hið opinbera. Nei, það á að taka peninga frá þessu fólki til að setja á laggirnar safn.

Virðulegi forseti. Ef (Forseti hringir.) einhver er atvinnustefna þessarar ríkisstjórnar í hnotskurn þá kom hún fram í þessum fréttum í morgun. (Gripið fram í: … ríkisstjórnina …)