139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[15:23]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði jafnframt í ræðu sinni að sú er hér stæði væri ekki í sambandi ef hún teldi að ríkisstjórnin væri að stuðla að því að laða hingað erlenda fjárfestingu og síðan voru ýmis verkefni talin upp.

Virðulegi forseti. Skoði hv. þingmaður söguna og staðreyndir. Flokkur hans hefur verið í ríkisstjórn síðustu tvo áratugi. Hversu fjölbreytt var sú erlenda fjárfesting sem hingað kom á þeim tíma? Hún var býsna einhliða. Það var ein tegund fjárfestingar nánast sem talist getur. (Gripið fram í.)

Menn verða að horfast í augu við það að Ísland hefur því miður aldrei verið fjárfestingarkostur fyrir fjölbreytta erlenda fjárfestingu, því miður. Það er það umhverfi sem við erum að reyna að skapa núna og er að vekja allan þennan áhuga sem hv. þingmaður taldi réttilega upp hér áðan. En það er fyrst að gerast nú undanfarin ár.

Hv. þingmaður fjallaði jafnframt um hollensku skýrsluna og talaði um hina pólitísku áhættu. Það er alveg rétt. Ég fékk svo sannarlega kynningu á þessari skýrslu enda heyrir þetta undir mitt ráðuneyti og var óskað eftir þessari vinnu af okkar hálfu. Það sem þar kemur fram um hina pólitísku áhættu, ef hv. þingmaður les skýrsluna, er að pólitísk stefnumörkun hefur aldrei farið fram hér á landi hvað erlenda fjárfestingu varðar. Þess vegna vantar t.d. Fjárfestingarstofu sterkara pólitískt bakland og stefnumörkun í vinnu sinni þegar hún er að sækja fjárfestingu á erlenda grundu. Þetta hefur alltaf vantað. Þetta er ekki nýtt og við erum að hlusta á þessa skýrslu með því að fara í skýra og skarpa stefnumörkun á þessu sviði.

Hvað varðar samráðið við Suðurnesjamenn, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) ætti hv. þingmaður að hlusta á fólkið suður með sjó sem við töluðum við í morgun. Við erum að hefja mjög mikilvægt samráð um uppbyggingu atvinnu, um uppbyggingu og styrkingu innviða suður með sjó. (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmann að gera ekki lítið úr því vegna þess að þetta er samstarf við heimamenn og hann ætti að hlusta á þá einu sinni.