139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

fjarskipti.

136. mál
[15:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Það er því miður þannig að ekki hefur náðst að halda fund með ráðuneytinu í hv. samgöngunefnd til að fara yfir þau mál sem á að leggja fram á þessu þingi. Sá fundur er í fyrramálið og það er í sjálfu sér ekki stórt atriði og skiptir kannski ekki öllu máli.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt. Í athugasemdum við lagafrumvarpið kemur fram að nokkrar umsagnir hafi borist frá hagsmunaaðilum og hefði verið tekið tillit til þeirra „eins og rétt þótti“. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað mikið standi út af eða hvort einhver áherslu- eða meiningarmunur sé í gögnum frá þeim umsagnaraðilum.

Það er verið að hækka gjöld í sambandi við hækkun á verðlagi og það þýðir að tekjur ríkissjóðs munu aukast um 132 milljónir á næsta ári — þá á reyndar eftir að draga frá því 11 milljóna kostnað, útgjaldaaukningu, þannig að niðurstaðan er einhvers staðar í kringum 121 milljón sem tekjur ríkissjóðs aukast. Ekki er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu og því langar mig að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann hafi áform um að nýta þessa fjármuni til uppbyggingar á fjarskiptanetinu í heild sinni. Á mörgum stöðum á landsbyggðinni er þetta í mjög bagalegu ástandi og við höfum fengið, hv. þingmenn, margar ábendingar um að þeir peningar sem voru áætlaðir í það í upphafi eru að klárast. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Hyggst hann nýta þessa tekjuaukningu, sem er þá hækkun á skattinum eða á gjaldinu, í uppbyggingu úti á landsbyggðinni til að styrkja fjarskiptanetið þar?