139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:32]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega er þingsalurinn þetta debatt-umhverfi sem við eigum að tala í og tala inn í og við eigum ekki að skirrast við því að halda hér á lofti málstað eða málefnum sem menn eru ósammála um, alls ekki. Ég hef einfaldlega verið að vísa til þess að það er mjög brýnt í bæði skuldamálum og atvinnumálum að ná saman um einhverjar lausnir og það verður ekki náð saman um lausnir ef menn vita fyrir fram að þær valda deilum. Það er ekki þar með sagt að menn eigi ekki að leggja þær fram en menn verða þá einfaldlega að gera það upp við sig að það sé ekki líklegt að þær nái fram að ganga.

Ég hef starfað talsvert á alþjóðavettvangi og hef minnst á það hér áður að á þeim vettvangi hvarflar ekki einu sinni að mönnum að leggja fram tillögu sem þeir vita að valda deilum. Það er bara ekki inni í myndinni að þeir geri það vegna þess að það er nánast tímasóun. Þess vegna hef ég talað fyrir því að menn reyni kannski að velta upp einhverjum tillögum í atvinnuuppbyggingu (Forseti hringir.) sem þeir geta gefið sér að muni (Forseti hringir.) e.t.v. ekki valda deilum fyrir fram.