139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

uppsögn af hálfu atvinnurekanda.

47. mál
[15:25]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er full ástæða til þess að þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur, 1. flutningsmanni þessarar tillögu, fyrir það frumkvæði sem hún hefur sýnt í að taka þessa tillögu upp og flytja hana hér. Ég er einn af flutningsmönnum, eða kannski öllu heldur flutningskörlum, þessarar tillögu þannig að tekið sé upp málfar hv. 1. flutningsmanns. Það kemur þess vegna ekki á óvart að ég skuli standa hér upp henni til stuðnings. Ég geri það m.a. vegna þess að samflokksmaður minn núverandi, og þó einkum fyrrverandi því að við vorum hér saman á þingi, Bryndís Hlöðversdóttir, upphafsmaður málsins, flutti málið fyrst á 120. þingi, eins og fram kemur hér í greinargerðinni, sem er þingið frá 1995 til 1996, en það er einmitt fyrsta reglulega þing eftir kosningarnar 1995 þegar Bryndís Hlöðversdóttir var fyrst kjörin, þá á lista Alþýðubandalagsins, og flutti hana fjórum sinnum, síðast á 130. löggjafarþingi sem var þingið frá 2003 til 2004, sem ég hygg að sé þingið áður en hún hætti störfum eða þar áður. Hún fylgdi þessu máli hér eftir, eða réttara sagt reyndi að þrýsta á um að þetta yrði samþykkt, allan sinn þingtíma (VigH: Rétt.) og á heiður skilinn fyrir það. Það varð aldrei af því að það yrði samþykkt þótt við séum í raun og veru skuldbundin, kannski ekki að lögum eða þjóðarétti en siðferðilega, að taka undir sem siðmenntuð og frjálslynd lýðræðisstjórn.

Í öðru lagi er rétt að nefna þau efnisatriði sem flutningsmaður fór í gegnum, hvað þetta mundi færa okkur á íslenskum vinnumarkaði. Það yrði þá að veruleika að atvinnurekandanum yrði skylt að rökstyðja uppsögn starfsmanns ef óskað væri eftir því. Honum væri skylt að segja starfsmanni ekki upp nema hafa til þess gilda ástæðu, ekki geðþóttaástæður eða óljósar eða einhvern óljósan vilja sem kemur fram í eftiráskýringum. Atvinnurekendum er líka skylt að koma upp tilteknu málsmeðferðarkerfi sem starfsmenn eigi rétt á við uppsögn eins og stendur hér í greinargerðinni, þeim gefinn kostur á að verja sig gegn aðfinnslum sem á hann eru bornar, vísa uppsögninni til hlutlauss aðila o.s.frv. eftir atvikum. Þetta þarf auðvitað að útfæra í íslenskum lögum og ekki síst í þeim reglum sem aðilar vinnumarkaðarins koma upp sín á milli sem eru oft ítarlegri og kannski traustari en þau lög sem sett eru um þetta á Alþingi þótt þetta þurfi auðvitað einna helst að hanga saman.

Það er svo í þessum efnum að Einbjörn togar í Tvíbjörn og Tvíbjörn í Þríbjörn og ef einu er breytt breytist annað og ef réttindi eru aukin á einum stað getur það komið þannig út að viðbrögðin komi óvænt fram á öðrum stað. Maður getur t.d. hugsað sér, og það er ein mótbáran gegn þessu máli, að eftir því sem launasamningur verður fastari og skilvirkari, þeim mun meiri tilhneiging verði til þess að taka upp verktöku á þeim stöðum og þeim svæðum á vinnumarkaðnum þar sem þetta kemur til greina. Auðvitað þarf að fylgjast með því og hafa á því augun. Það var m.a. einn af sjúkdómunum hér á vinnumarkaði og í samfélaginu áratuginn eða áratugina fyrir hrun að verktaka jókst feikilega og helst átti hver maður að vera sitt eigið fyrirtæki sem átti þátt í þeim ósköpum sem við erum núna að bjarga okkur úr.

Aðalröksemdin gegn þessari breytingu og fullgildingu á þessari samþykkt ILO hefur þó verið sú að hún kunni að draga úr sveigjanleika á vinnumarkaðnum. Því er ágætlega svarað í greinargerðinni og Alþýðusambandið hefur fyrir hönd launafólks svarað því vel.

Auðvitað er rétt, eins og ég sagði áðan, að stífar og stirðar reglur um samningssamband launamanns og atvinnurekanda geta átt þátt í því að minnka sveigjanleika sem við teljum æskilegan og er eitt af því sem íslenskur vinnumarkaður hefur haft fram yfir grannlöndin, mörg Evrópulandanna, sem m.a. hefur komið fram í því að svört vinna er þó ekki meiri en hún er á Íslandi. Þó að okkur þyki nóg um er hægt að nefna dæmi um það í öðrum Evrópulöndum að svört vinna er mjög mikil við hliðina á vinnumarkaði sem þykir vera stífur og stirður og mjög fullkominn í ytra útliti en hefur hrakið menn yfir í svarta vinnu, sem einmitt getur fylgt miklu atvinnuleysi. Klassíska dæmið er auðvitað Spánn að þessu leyti, eða var a.m.k. fyrir nokkrum árum þegar ég var að grauta í þessum efnum.

Þetta er rétt. Þá er líka að skoða vinnumarkaðinn hér. Hvers vegna er hann sveigjanlegur? Er það vegna þess að við séum svo óskaplega frjálslynd eða óskaplega losaraleg í þessum samningum milli atvinnurekenda og launamanna eða verkalýðs? Nei, það er ekki svo. Við höfum mjög gamla og trausta sögu verkalýðsbaráttu. Atvinnurekendur og launafólk hafa borið gæfu til þess að vinna saman um áratugaskeið án verulegra átaka og hafa getað náð ýmsum framfaraáföngum sín á milli. Það hefur líka endurspeglast í djörfung Alþingis og ríkisvaldsins sem er þriðji aðilinn í því „korpóratíska“ samstarfi sem svo heitir á fræðimáli og er í þessu tilviki ekki niðrunaryrði heldur er það það sem hefur skapað sveigjanleikann á íslenskum vinnumarkaði miklu frekar, í fyrsta lagi hinn almenni hreyfanleiki í íslensku samfélagi, það að ekki eru hér fastar afskorðaðar stéttir, í marxískum skilningi en líka í hinum almenna skilningi, fagstéttir eða vinnustéttir. Það er afleiðing af Íslandssögunni eins og hún hefur gengið að undanförnu. Það eru auðvitað líka þau viðhorf í samfélaginu, meðal launamanna og meðal atvinnurekenda, sem má kannski rekja til vinnusemi og sjálfsbjargarviðleitni gamalla tíma, að allir eigi að geta gert allt og engum sé neins konar neyð í því eða hnekkir að því að vinna þau störf sem fyrir liggja, samanber Stephan G. Stephansson sem orti á sínum tíma:

Löngum var ég læknir minn

lögfræðingur, prestur

smiður, kóngur, kennarinn,

kerra, plógur, hestur.

Hann lærði þetta í Skagafirðinum og fór með það til Alberta í Kanada og annarra slóða í Vesturheimi og vann samkvæmt þessari reglu. Hann minnist þó ekki á sig fyrir það sem hann varð frægastur fyrir, sem var auðvitað það að hann varð einhver helsti bókmenntamaður í þeirri álfu um sinn tíma og er enn einn af höfuðsnillingum í íslenskum bókmenntum og skáldskap.

Í þriðja lagi er svo auðvitað það að við höfum hér búið að töluvert víðtækri og víðfeðmri menntun launamanna. Á Íslandi hafa iðnaðarmenn og aðrar fagstéttir ekki með þeim hætti sem hefur gerst í öðrum löndum tekið upp gildishugmyndir og ýmiss konar útilokunaraðferðir þótt á því hafi nokkuð borið sem ég tel að vísu eðlilegt en heldur leiðinlegt og við höfum ýmis vond dæmi um.

Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og fullgilding okkar á henni á ekki að þurfa að leiða til þess að hér dragi úr þessum sveigjanleika. Hún á þvert á móti að geta leitt til þess að atvinnurekendur og launamenn geti minnkað tortryggni og aukið trúnað milli atvinnurekenda og launamanna.

Að lokum fagna ég eins og flutningsmaður því að nú er allt útlit fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn komi til liðs við þessa tillögu í fimmta sinn sem hún er flutt. Hingað til hefur það ekki verið. Gott dæmi um það er einmitt varðstaða góðra og traustra sjálfstæðismanna — einn þeirra situr hér fyrir framan mig til hægri handar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem einmitt ætlar að tala hér á eftir og lýsa stuðningi við tillöguna — varðstaða þeirra um launamenn, einkum þann sem sagt var upp á Ríkisútvarpinu í gær, og ég tek heils hugar undir og fagna mjög að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og félagar hans 15 í Sjálfstæðisflokknum skuli nú gengnir til liðs við okkur sem hér tökum þátt í baráttu launamanna fyrir betri kjörum og traustari skilmálum í kringum sína vinnu, landinu og þjóðinni til gagns.