139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir andsvarið. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir. Það sem gerist þarna er að Háskólasetur Vestfjarða gerir fimm ára samning við iðnaðarráðuneytið, síðan fer það inn á fjárlög hjá menntamálaráðuneytinu. Þetta er alveg hárrétt, hún er ekkert að fara með neitt rangt í þessu máli.

Það sem ég var hins vegar að benda á í ræðu minni, eða ætlaði a.m.k. að reyna að gera það — og ég er ekkert að saka iðnaðarráðuneytið um einhverja illsku gagnvart þessari stofnun eða neitt þar fram eftir götunum eða hæstv. ráðherra, ef orð mín hafa skilist þannig þykir mér það miður, það var ekki ætlunin.

Það sem ég var að reyna að koma að var það að menn eigi að horfa á heildarsýnina í því hvað þetta þýðir fyrir þessa stofnun. Líka annað. Þegar þarf að skera niður og við þekkjum það mjög vel — ef skornar eru niður einhverjar stofnanir sem eru með nemendur þá er skólaárið fram á vorið. Menn verða því aðeins að taka þetta í skilvirkari skrefum þannig að stofnunin geti þá brugðist við og menn verða að skoða hvaða áhrif þetta hefur á heildarmyndina.

Ég tek hins vegar undir það með hv. þingmanni, og ætla ekkert að gera lítið úr því, að iðnaðarráðuneytið gerði fimm ára samning. Það er ekkert sjálfgefið, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, að allir samningar séu endurnýjaðir.

Þá velti ég líka bara fyrir mér að ef það væri alltaf með þeim hætti — það er dálítið ruglingslegt og auðvitað væri langeðlilegast að allir þessir hlutir væru undir menntamálaráðuneytinu, sama hvort það er Háskólasetur Vestfjarða eða Austfjarða eða hvað þetta allt heitir, þá væri langbest að það væri allt saman undir einu ráðuneyti. Við erum t.d. með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem er að borga prófessorsstöður og þar fram eftir götunum. En það sem ég var að reyna að koma á framfæri er þessi heildarsýn yfir það hvað verið væri að gera, ekki taka þennan en láta svo kannski eitthvað annað fljóta í gegn. Það er það sem ég var að kalla eftir.