139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins að þessu aftur. Það eru margir sem telja að um aðlögun sé að ræða. Komið hefur fram að við erum að ganga í gegnum sama ferli og Króatía. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að vitna í framvinduskýrslu Króatíu sem er komin lengra í ferlinu.

Önnur spurning sem mig langar að beina til hv. þingmanns er þessi: Er hún ekki tilbúin til að landa þessu máli, að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda skuli áfram? Mig langar að spyrja hv. þingmann sérstaklega af hverju hún sé hrædd við að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla á þessum tímapunkti. Væri það ekki bara ágætislausn miðað við hvernig málin standa, að senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu? Ef þjóðin kæmist að því að halda skyldi áfram væri það gert en segði þjóðin nei væri það ekki gert. Af hverju hræðist hv. þingmaður svona að bera málið undir þjóðina á sama tíma og sýnt er fram á að um aðlögun er að ræða á mjög mörgum sviðum?