139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var einmitt það sem ég var að benda á áðan og ég get svarað þessu mjög einfaldlega: Já, mér finnst þetta undarlegt. Þetta er mjög skrýtin staða. Ég veit ekki hvað fólkið úti í Brussel hugsar þegar það fær fréttir af þessu. Þetta er náttúrlega allt saman þýtt jafnóðum af þessar skrifstofu þeirra og ég held að þeir verða mjög hugsi yfir því.

Þegar hæstv. utanríkisráðherra sem skrifaði undir þessa umsókn ásamt með hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur — þau skrifuðu ein undir þetta, bæði úr Samfylkingunni. Þegar verið var að afhenda þetta og farið var að tala um það að Íslendingar hefðu hugvit til að breyta reglum Evrópusambandsins þá var vísað kurteislega til þess að Ísland væri að sækja um aðild að Evrópusambandinu en ekki öfugt, breytingar á reglum Evrópusambandsins væru ekki til umræðu.

Þetta er allt mjög undarlegt. Ég hugsa að menn séu mjög hikandi í Evrópusambandinu, hvernig þeir eigi að sjá þessi mál öll í einu skæru ljósi.