139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[14:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefnir að ég hef boðað að ég mun endurskoða tillögurnar varðandi heilbrigðismálin milli 1. og 2. umr. og sú vinna stendur yfir. Ég hef upplýst jafnt og þétt í hverju vinnan felst. Sendur var fimm manna hópur á allar heilbrigðisstofnanir og farið nákvæmlega yfir hvernig þessi niðurskurður mundi koma við að óbreyttu. Síðan var skoðað hvaða varnarlínu við gætum dregið, farið var yfir endurskipulagningu á því hvar svokölluð umdæmissjúkrahús ættu að vera eða sjúkrahús sem hefðu ákveðið hlutverk og verkefni, eins og á Ísafirði, í Neskaupstað og víðar. Sú vinna er um það bil að klárast og ég var búinn að tilkynna að ég mundi fara yfir tillögurnar að henni lokinni með viðbót í huga, þ.e. endurskoðun. Það liggur ekki alveg fyrir hvort aðeins verður hrært í pottinum með því að færa til eða hvort bætt verður í hann. Eins og hv. þingmaður ýjar að í spurningu sinni mun það verða gert í samráði við áætlun um niðurstöðu og þegar þjóðhagsspá kemur verður skoðað hversu mikið verður hægt að bæta í eða hvernig við getum endurraðað í því sambandi.

Varðandi hvort horft verður til lengri tíma mun það verða gert í einhverjum tilfellum en það er sem sagt verið að fara yfir tillögurnar. Hluta af þeim mun verða skilað til baka en ég tel ekki tímabært að fara í það nákvæmlega eftir svæðum eða einstökum stofnunum. Ég ætla að fara yfir tillögurnar þegar ég fæ þær núna um helgina og mun síðan verða í sambandi við heilbrigðisstofnanirnar sem unnið hafa með okkur að endurskoðuninni.