139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[21:26]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin. Mig langar í framhaldi af þessu að beina því til hv. þingmanns hvort hann hafi engar áhyggjur af því, þ.e. þegar um er að ræða að skapa hagsmuni í heilbrigðisþjónustufyrirtækjum úti í bæ, að smátt og smátt skapist svo miklir hagsmunir í því kerfi með vaxandi fjárfestingum o.s.frv. að það éti smátt og smátt undan almannaheilbrigðiskerfinu. Að mínu mati er raunveruleg hætta á því vegna þess að við erum að tala um tiltölulega lítið heilbrigðiskerfi þar sem í rauninni geta aldrei verið mjög margir aðilar á markaði.

Við skulum athuga að til að mynda Danir meta það svo að heilbrigðiskerfi þeirra, sem telur eitthvað á sjöttu milljón manna, sé varla bært til að standa undir einhvers konar samkeppnismarkaði. Í þessu sambandi má benda á að á sínum tíma þegar heilbrigðislögin sem nú eru í gildi voru samin, voru m.a. fengnir til ráðgjafar þar um, sérfræðingar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Ef ég man rétt var einn af núverandi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í forsvari fyrir stofnunina á þeim tíma. Á fundum með nefndinni sem samdi lögin á þeim tíma kom fram hjá sérfræðingum Hagfræðistofnunar að lögmál markaðarins og lögmál samkeppni giltu í rauninni ekki á markaði eins og heilbrigðismarkaði og allra síst á markaði eins litlum og þeim íslenska.