139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

staða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

[14:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef hér utandagskrárumræðu um stöðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þótt það mál sé einungis til umræðu er ekki verið að gera minna úr þeim vanda sem lögreglan á við að glíma um land allt og þeim niðurskurðartillögum sem þeim fylgja. Eins og flestir vita var embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu stofnað 1. janúar 2007 og varð það til við sameiningu þriggja lögregluembætta, í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi. Undir embættið heyra um 200 þús. manns þannig að embættið er gríðarstórt en stofnun þess var liður í víðtækum breytingum á skipun lögreglumála á landinu öllu. Lögreglan er einn af hornsteinum samfélagsins og gegnir lögbundnu hlutverki, þ.e. hún á að halda uppi lögum og reglu í samfélaginu. Forgangsröðun stjórnvalda nú er því sérlega undarleg í ljósi þess að hún segist vera vinstri velferðarstjórn en hefur þó ekki gert annað en að skera niður það fjármagn sem lögreglunni er ætlað. Sem dæmi má nefna markmið í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011 um að áfram er gert ráð fyrir 5% samdrætti hjá lögregluembættunum og þeim gert að takast á við enn frekari niðurskurð. Talað er um að heildarfjárveiting til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dragist saman um tæpar 200 millj. kr. á milli ára samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi. Að vísu vega þar upp á móti launa- og verðlagsbætur að fjárhæð 100 millj. kr. og munar þar mest um hækkun vegna úrskurðar gerðardóms í kjaradeilu lögmanna frá því í sumar.

Það vita allir að lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt og geta ekki varið rétt sinn eins og venjulegir launamenn. Því er samspil milli stjórnvalda og lögreglunnar afar mikilvægt og brýnt að þar ríki trúnaðartraust, en ég ætla ekki að fara frekar í kjarasamninga lögreglunnar að sinni.

Til þess að mæta aðhaldsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brugðist við með því að gera umtalsverðar breytingar á skipulagi lögreglunnar. Því hefur verið tekið upp nýtt vaktafyrirkomulag og verkefni og verkferlar hafa verið endurskoðuð og endurskipulögð. Hópur lögreglumanna þarf að taka á sig mikla yfirvinnu þegar skortur er á starfsfólki og mikið um að vera í samfélaginu. Starfsumhverfi það sem lögreglumönnum er búið er oft erfitt, þeir þurfa að vera í vinnunni á kvöldin og um helgar þegar flestir aðrir eru í fríi. Bitnar það mest á yngri lögreglumönnum sem eru fjarri fjölskyldum sínum og vinum á sama tíma.

Í skýrslu sem ríkislögreglustjóri lét vinna í nóvember 2008 sem ber heitið Könnun á streitu og líðan lögreglumanna kemur fram að lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu upplifa frekar stöðugar breytingar á stefnu embættisins, skort á starfsfólki, of mikið skrifræði, skort á kennslu á nýjan búnað, ósamkvæman stjórnunarstíl, skort á úrræðum og ófullnægjandi búnað. Í skýrslunni kom einnig fram að merkjanlegur munur var á lögreglumönnum á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu, lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu voru stressaðri, þunglyndari, kvíðnari og óhamingjusamari en kollegar þeirra á landsbyggðinni.

Það var nokkuð einkennilegt sem fram kom í skýrslunni að þeir sem lokið höfðu námi við Lögregluskólann höfðu sömu einkenni, sem gætu þá jafnvel stafað af aukinni ábyrgð sem menntaðir lögreglumenn hafa.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þessi skýrslan var gerð, en það var í nóvember 2008 eins og ég kom inn á. Þá tala ég um ég að hér hrundi heilt bankakerfi og um mótmælin sem spruttu í kjölfarið, búsáhaldabyltinguna og fjölda mótmæla á Austurvelli nú í haust.

Á bak við lögreglubúninginn eru venjulegir borgarar. Lögreglan býr við mikið álag og lögreglumenn eru mannlegir eins og aðrir. Þarna eru einstaklingar sem eiga börn og fjölskyldur, þessir menn eru líka með skuldir og eru jafnvel jafnmikið á móti þeirri verklausu ríkisstjórn sem við sitjum uppi með. Þeir þurfa samt að standa í lappirnar og sýna ekki svipbrigði.

Það er undarlegt í ljósi þess sem ég hef farið yfir hversu ráðþrota ríkisstjórnin er gagnvart lögreglunni sjálfri, að ríkisstjórnin fari fram á niðurskurð. Ég spyr því hæstv. dómsmálaráðherra sem er nýtekinn (Forseti hringir.) við embætti: Er áherslubreytinga að vænta hjá ráðherranum? Ég spyr jafnframt hver forgangsröðun ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) er.