139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

staða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

[14:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að við getum verið sammála um það sem fram hefur komið hjá fyrri ræðumönnum, löggæslustarfsemi er auðvitað grundvallarstarfsemi í þjóðfélaginu. Hún er ekki lúxus, hún er ekki eitthvað sem við bætum í eða höldum uppi sem ríkt samfélag. Öflug löggæsla er nauðsyn, hefur lykilhlutverki að gegna varðandi öryggi borgaranna og er ein af grunnstoðunum.

Það er rétt sem fram hefur komið hjá hæstv. dómsmálaráðherra, hin almenna löggæsla hefur ekki þurft að taka á sig alveg jafnmikið og krafan hefur verið um í fjárlögum almennt. Engu að síður leyfi ég mér að halda því fram að það sé of langt gengið hvort sem horft er til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða lögreglunnar almennt.

Það er rétt hjá hæstv. dómsmálaráðherra að fjármunirnir eru af skornum skammti. Þeir peningar sem við höfum úr að spila hafa dregist mjög saman en engu að síður sjáum við, þegar við horfum á fjárlagafrumvarp það sem núna liggur fyrir og einstök frumvörp sem hér hafa komið fram um önnur mál, fjöldamörg önnur verkefni, ný verkefni, nýjar stofnanir, fjölgun starfa á ýmsum sviðum þar sem verið er að bæta í kostnaðinn, í verkefni sem vissulega geta verið jákvæð og góð en eru ekki hluti af grunnstarfseminni, grunnkerfinu, snúast ekki um lágmarksöryggi borganna, öryggi gagnvart því að lífi, (Forseti hringir.) heilsu og eignum sé ekki stefnt í voða. Enn þarf því að forgangsraða í þágu löggæslunnar.