139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

fjölmiðlar.

198. mál
[17:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um fjölmiðla sem er hv. þingheimi nokkuð kunnuglegt því að um er að ræða að uppistöðu mál sem var flutt á síðasta þingi en ekki klárað. Mæli ég því fyrir því aftur og ætla að fara annars vegar yfir helstu atriði frumvarpsins og síðan þær breytingar sem gerðar hafa verið á því á milli þinga.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að mikil gróska og örar breytingar hafa einkennt íslenskan fjölmiðlamarkað allt frá því að útvarpslögum var breytt árið 1986. Lagaumhverfi fjölmiðla á þessum tíma hefur verið einfalt hérlendis, litlar sem engar hindranir hafa verið fyrir stofnun nýrra fjölmiðla og fjölmiðlafyrirtækja og hér eins og í fjölmörgum öðrum ríkjum heims hefur þróunin orðið sú að fjölmiðlafyrirtæki hafa stækkað og eflst auk þess sem samruni fjölmiðla-, tölvutækni- og fjarskiptafyrirtækja hefur orðið. Ör tækniþróun, ekki síst á fjölmiðlamarkaði, hefur kallað á heildstæða löggjöf sem nær m.a. til þeirrar samþættingar sem orðið hefur á sviði fjölmiðlunar og fjarskipta og var kannski engum fyrirsjáanleg fyrir rúmum áratug. Við þessar aðstæður hefur sífellt aukinn þungi færst í þá umræðu að þörf sé á ítarlegri löggjöf um starfsemina.

Ég held að við getum öll verið sammála um mikilvægi fjölmiðla, ekki síst á okkar tímum, en í raun má segja að það eigi við á öllum tímum. Þeir gegna lykilhlutverki í sérhverju lýðræðissamfélagi sem vettvangur umræðu, skoðanaskipta, upplýsinga, afþreyingar, menningar og fróðleiks.

Með þessu frumvarpi er í fyrsta sinn stefnt að því að setja eina heildstæða löggjöf um fjölmiðla og starfsemi þeirra hér á landi. Með því er lagt til að samræma og sameina ýmis ákvæði útvarpslaga frá árinu 2000 um hljóð- og myndmiðla og laga um prentrétt frá 1956 hvað varðar prentmiðlana. Það má kalla það talsvert nýmæli að fjölmiðlar séu teknir saman í eina heild. Að sjálfsögðu snýst það í raun um þær breytingar sem hafa orðið á tækniumhverfinu sem gerir það að verkum að munur á prentmiðlum og hljóð- og myndmiðlum verður æ óljósari.

Tilurð frumvarpsins og helsti hvati að gerð þess má upphaflega rekja til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 65 frá 11. desember 2007, um breytingu á tilskipun ráðsins, nr. 552/1989, sem snerist um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur. Vegna skuldbindinga EES-samningsins er íslenska ríkinu skylt að laga efni tilskipunarinnar að landsrétti.

Þó að gildandi útvarpslög séu ekki gömul, eða frá árinu 2000, var talið nauðsynlegt og eðlilegt að endurskoða löggjöfina í heild sinni samhliða lögleiðingu þeirra breytinga sem efni tilskipunarinnar felur í sér. Fyrir þeirri tilhögun eru fjölþætt rök. Í fyrsta lagi hafa þróun og tækniframfarir sem ég nefndi áðan verið afar hraðar frá setningu gildandi útvarpslaga og eru því þegar úrelt um margt, til að mynda um gildissvið og ýmis viðmið. Einnig má nefna að grundvallarhugtök á borð við sjónvarp, sjónvarpsstöð og fleiri slík eru skilgreind of þröngt í gildandi löggjöf. Bann er lagt við að byggja upp fjölrásasjónvarp á því tíðnisviði sem nágrannaþjóðir Íslands nota og skortur er á jafnræði milli sjónvarpsstöðva af þeirri einföldu ástæðu að gildandi lög gera eðlilega ekki ráð fyrir slíkum tækniframförum. Í öðru lagi eru flest þeirra ríkja sem við kjósum helst að bera okkur saman við komin talsvert lengra í þróun löggjafar og þess starfsumhverfis sem ljósvakamiðlar á 21. öldinni kalla óhjákvæmilega á, sem verður æ alþjóðlegra og óháð landamærum. Það er nauðsynlegt að bregðast við breyttu umhverfi nú þegar svo að við drögumst ekki frekar aftur úr. Loks eru ákvæði hinnar nýju tilskipunar bæði viðamikil og útheimta verulegar breytingar á gildandi lögum.

Frá gildistöku núgildandi útvarpslaga hafa orðið nokkrar breytingar á samsetningu og gerð íslensks fjölmiðlamarkaðar. Í kjölfar þess hafa skapast miklar umræður í samfélaginu um frekari reglusetningu og skipan mála á því sviði. Tvær viðamiklar skýrslur voru gerðar í tilefni af lagafrumvörpum á árunum 2004 og 2005. Árið 2004 setti Alþingi lög um breytingu ýmissa lagaákvæða sem varða fjölmiðla en eins og kunnugt er voru þau lög felld úr gildi eftir að forseti Íslands synjaði staðfestingu þeirra. Í tvígang árið 2006 var mælt fyrir frumvarpi til breytinga á útvarpslögum, lögum um prentrétt og samkeppnislögum en það frumvarp fékk ekki brautargengi á Alþingi sem bendir til þess, í ljósi þess að þetta er í annað sinn sem ég mæli fyrir þessu frumvarpi, að allerfitt sé að koma fjölmiðlalögum í gegnum þingið. Við verðum að sjá hvernig það mun takast að þessu sinni.

Margar tillögur sem koma fram í fyrrgreindum skýrslum sem ég nefndi áðan og varða grundvallaratriði í rekstri og starfsumhverfi fjölmiðla eiga erindi í ný lög á þessu sviði og hafa þær verið nýttar við gerð þessa frumvarps. Mig langar einnig að nefna að í stjórnarsáttmálanum eru tilgreind áform um að sameina í eina löggjöf þær reglur sem lúta að fjölmiðlum og starfsemi þeirra í víðtækasta skilningi. Þar er einnig litið til fjölmiðla í prentuðu formi og fjölmiðla sem miðla ritefni með rafrænum hætti, svo sem netútgáfu dagblaða, tímarita og annarra sambærilegra netmiðla. Lagaleg staða slíkra miðla sem má kalla á mörkum hljóð- og myndmiðla og svo prentmiðla hefur verið óljós í þeirri hröðu þróun fjölmiðla og fjölmiðlatækni á undanförnum árum og er nauðsynlegt að bregðast við því.

Við samningu frumvarpsins þótti einnig nauðsynlegt að víkka sjóndeildarhringinn verulega frá þeirri afmörkun sem liggur til grundvallar gildandi útvarpslögum og prentlögum. Þetta felst m.a. í tillögum um gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum, reglum um aðgang efnisveitna að ólíkum dreifiveitum, flutningsrétt dreifiveitna á efni auk grundvallarbreytinga á stjórnsýslu á þessu sviði. Þá eru ábyrgðarreglur samræmdar fyrir allar tegundir fjölmiðla en þau mál hafa einmitt verið talsvert til umræðu, ekki síst á meðal þeirra sem starfa hjá fjölmiðlunum, blaðamönnum og fréttamönnum. Þetta útheimtir, auk smíði nýrrar heildarlöggjafar, breytingar á ákvæðum nokkurra annarra laga, svo sem höfundalaga og laga um eftirlit með aðgengi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum.

Við samningu frumvarpsins var víða leitað fanga. Aflað var álits fjölmargra sérfróðra aðila og hagsmunaaðila og fyrirmynda leitað erlendis frá. Yfirfarin voru tilmæli, yfirlýsingar og leiðbeinandi reglur Evrópusambandsins og Evrópuráðsins um fjölmiðla. Enn fremur, eins og ég nefndi áðan, hefur verið stuðst við þá faglegu vinnu sem hefur verið unnin á þessu sviði innan lands og liggja auðvitað mikil verðmæti í þeim skýrslum sem við eigum.

Haustið 2009 var þetta frumvarp lagt fram til almennrar kynningar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins, bréf sent öllum helstu hagsmunaaðilum til að vekja athygli þeirra á frumvarpinu og þeir hvattir til að gera athugasemdir. Fjölmargar athugasemdir bárust í þeim umgangi og tekið var nokkurt tillit til þeirra áður en mælt var fyrir frumvarpinu þann 4. mars árið 2010 á Alþingi. Jafnframt bárust menntamálanefnd athugasemdir hagsmunaaðila þegar hún tók málið til umfjöllunar og var tekið tillit til nokkurra þeirra í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar frá 2. september 2010. Þær athugasemdir og breytingartillögur meiri hluta menntamálanefndar hafa verið færðar inn í frumvarpið.

Þá vil ég nefna að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 er bent á að leitað verði leiða til að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun með því að styrkja bæði fagleg og fjárhagsleg skilyrði fjölmiðlunar. Þá er bent á að styrkja þurfi sjálfstæði ritstjórna og setja eignarhaldi á fjölmiðlum hófleg mörk. Þá er sett fram sú krafa að upplýsa verði hverjir séu eigendur fjölmiðla á hverjum tíma til að almenningur geti lagt sjálfstætt mat á hvort þeir dragi taum eigenda sinna. Að lokum er vakin athygli á því að faglegt eftirlit með fjölmiðlum þurfi að vera fyrir hendi sem stuðli að því að þeir ræki af ábyrgð hlutverk sitt sem fjórða valdið í lýðræðisríki og verndi almannahagsmuni.

Í frumvarpinu er leitast við að koma til móts við allar ábendingar rannsóknarnefndarinnar og hefur efni hennar verið fléttað inn í greinargerðina. Má þar nefna ákvæði um gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum og sjálfstæði ritstjórna og jafnframt er reynt að koma á mikilvægum réttarúrbótum fyrir blaðamenn með því að samræma áðurnefndar ábyrgðarreglur, en þær snúast til að mynda um hver skuli greiða fébætur í dómsmálum og um reglur um áminningar og brottvikningu blaða- og fréttamanna. Allt er þetta gert til að þeir geti starfað sjálfstætt, sinnt hlutverki sínu sem fjórða valdið og eigi það ekki á hættu að vera dregnir til ábyrgðar fyrir tilvitnanir sem hafðar eru beint eftir heimildarmönnum. Jafnframt er skerpt á ákvæði um vernd heimildarmanna sem er afar mikilvæg í öllum lýðræðisríkjum. Öll þessi ákvæði held ég að skipti máli og rætt hefur verið um og kallað eftir á þinginu, m.a. á undanförnum dögum, að mikilvægt sé að við tökum þau til umræðu hér.

Gerðar eru veigamiklar breytingar á núverandi reglum um auglýsingar og kostun til að koma til móts við kröfu fjölmiðla um að nýta nýja tækni til að skapa nýja tekjugrunna og má í þessu sambandi nefna svokallaðar sýndarauglýsingar og vöruinnsetningar. Einnig er lagt til að nú þegar verði skipuð nefnd til að gera tillögur í frumvarpsformi um eignarhald á fjölmiðlum og skal sú nefnd skipuð fulltrúa allra flokka á Alþingi. Það er breyting frá fyrra frumvarpi sem gerði ráð fyrir að slík nefnd mundi starfa að lokinni málsmeðferð. Ég mun í framhaldi af 1. umr. í dag óska tilnefningar frá öllum þingflokkum til að nefndin geti hafið störf og starfað núna í vetur.

Að lokum er í frumvarpinu brugðist við þeirri athugasemd rannsóknarnefndar Alþingis að koma á faglegu eftirliti með fjölmiðlum vegna þess mikilvæga hlutverks sem fjölmiðlar gegna í lýðræðisríkjum. Er því lagt til — um er að ræða breytingu sem ég ræði aðeins ítarlegar á eftir — að fjölmiðlanefnd, sjálfstæðri stjórnsýslunefnd, verði gert skylt að hafa eftirlit með framkvæmd fjölmiðlalaga líkt og gert er í öðrum lýðræðisríkjum og reynt að tryggja eins og kostur er sjálfstæði hennar gagnvart hinu pólitíska valdi. Þess ber að geta að sambærilegar athugasemdir birtust svo í skýrslu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Þó að frumvarpið sé allítarlegt og nákvæmt um hljóð- og myndmiðla, þar með talið á netinu, vegna alþjóðlegra skuldbindingar Íslands má segja að það setji einungis lágmarkslagaumgjörð um starfsemi annarra fjölmiðla. Auk þess gera nýjar miðlunarleiðir, tæknibreytingar annars vegar og sjónarmið um jafnræði og þverpólitískar kröfur um gagnsæi hins vegar, þessar tillögur óhjákvæmilegar. Með frumvarpinu er komið til móts við sjónarmið um að réttaróvissu verði eytt, hlutlægi og gagnsæi aukið og jafnframt stuðlað að auknu réttaröryggi þeirra sem starfa á fjölmiðlum. Síðast en ekki síst er mikilvægt að sambærilegar reglur gildi um mismunandi fjölmiðla og miðlunarleiðir sem hefur skort nokkuð á hér á landi hin síðari ár.

Ég ætla í eins stuttu máli og unnt er að víkja að helstu nýjungum sem felast í frumvarpinu sem tekur til allra fjölmiðla sem miðla efni sem ætlað er almenningi hér á landi, að teknu tilliti til ákvæðis um lögsögu fjölmiðlaþjónustuveitenda sem miðla myndefni. Um lögsögu þeirra gilda reglur tilskipunar ESB nr. 65/2007.

Samkvæmt frumvarpinu er öll starfsemi fjölmiðla sem undir lögin falla skráningarskyld sé hún ekki leyfisskyld. Almenn skráningarskylda af þessum toga er ný af nálinni og felur vissulega í sér auknar kröfur á hendur þeim aðilum sem eiga og reka fjölmiðla. Við mat á þeim álögum má kalla kröfurnar fremur léttbærar og snúa þær fyrst og fremst að upplýsingagjöf. Skráningar- eða tilkynningarskylda af þessu tagi á rætur að rekja til tillagna hinnar þverpólitísku fjölmiðlanefndar frá apríl 2005. Í þeim tillögum sagði m.a. að gera þyrfti greinarmun á ljósvakamiðlum annars vegar og prentmiðlum og netmiðlum hins vegar hvað varðar opinber leyfi. Nefndin gerði ekki tillögu um grundvallarbreytingu á því fyrirkomulagi að starfsemi ljósvakamiðla væri í meginatriðum háð leyfi en annað gilti um prentmiðla og raunar einnig netmiðla. Nefndin taldi að skoða bæri þá tilhögun að mismunandi reglur giltu um ólíka fjölmiðla og hvað ljósvakamiðla varðaði yrði sum starfsemi ekki leyfisskyld heldur skráningarskyld til að stjórnvöld hefðu fullnægjandi yfirsýn á hverjum tíma. Þegar nefndin skilaði tillögum sínum taldi hún ekki brýnt að leggja til að þessari skipan yrði komið á en staðreyndin er á hinn bóginn sú að mikil gerjun hefur átt sér stað síðan vorið 2005 þegar þessi niðurstaða var fengin. Augljósari rök standa nú en áður til að þessi leið verði farin og þá í tilviki allra fjölmiðla, enda ekki ástæða til að gera þar greinarmun á, m.a. vegna jafnræðissjónarmiða. Í öðru lagi leiðir það af auknum kröfum hljóð- og myndmiðlunartilskipunarinnar að því stjórnvaldi sem sinnir eftirlitshlutverki á þessu sviði að nauðsynlegt er að geta fylgst með allri starfsemi hverju nafni sem hún nefnist og án tillits til þess hvort hún sé leyfisskyld eða ekki. Til að geta fylgt markmiðum frumvarpsins um að hafa eftirlit með lögunum þarf fjölmiðlanefnd að hafa yfirlit yfir þá fjölmiðlaþjónustuveitendur sem ekki eru leyfisskyldir en heyra undir lögin að öðru leyti. Einnig er mikilvægt í þessu efni að með alþjóðavæðingu fjölmiðla, þar sem sent er út frá einu ríki og efninu beint að öðru eða öðrum ríkjum, er nauðsynlegt að stjórnvöld hafi á hverjum stað yfirlit yfir þá fjölmiðlaþjónustuveitendur sem þar starfa. Í hljóð- og myndmiðlunartilskipuninni er gert ráð fyrir að þessi fyrirtæki veiti stjórnvöldum ýmsar upplýsingar um starfsemina sem almenningur getur haft greiðan og beinan aðgang að og sem þau nota í upplýsingagjöf til eftirlitsstofnana á vegum EFTA og Evrópusambandsins. Í þriðja lagi er skráningarskyldan nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að fá upplýsingar um eignarhald fjölmiðlaþjónustuveitenda. Í því sambandi skal bent á að það er ekki einsdæmi að fjölmiðlar séu allir skráningarskyldir. Á Norðurlöndum eru fordæmi fyrir því að allir sem reka eða hyggjast setja á stofn fjölmiðla þurfi að tilkynna það til stjórnvalda, tilgreina samhliða því ábyrgðarmann viðkomandi fjölmiðils. Hefðbundnir ljósvakamiðlar þurfa jafnframt leyfi. Kostur þess að láta skrá sig sem fjölmiðil felst í þeim réttindum sem fjölmiðlar njóta umfram önnur fyrirtæki, svo sem um vernd heimildarmanna og sjálfstæði ritstjórna.

Í frumvarpinu er lagt til að hljóð- og myndmiðlun sem á uppruna hér á landi og krefst þar með tíðniúthlutunar frá Póst- og fjarskiptastofnun þurfi leyfi fjölmiðlanefndar nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum. Er ákvæðið sambærilegt gildandi útvarpslögum. Þeim var fyrst og fremst ætlað að taka til hefðbundinna útvarps- og sjónvarpsstöðva sem senda út í loftið, svokallaðra ljósvakamiðla, en frumvarpi þessu er hins vegar ætlað að ná til allra hljóð- og myndmiðlunar óháð þeirri tækni sem notuð er til dreifingar og óháð því hvort um línulega dagskrá er að ræða eða efni eftir pöntun. Hér á landi hefur útvarpsréttarnefnd veitt leyfi af þessu tagi frá árinu 1986 þegar útvarpslögum var breytt. Ekki þykir rétt að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi að öðru leyti en því sem hlýst af breyttri tækni og stjórnsýslu.

Í V. kafla frumvarpsins er fjallað um réttindi og skyldur fjölmiðlaþjónustuveitenda í víðtækum skilningi. Reglurnar í kaflanum eiga sér að nokkru leyti samsvörun í reglum IV. kafla núgildandi útvarpslaga um skyldur útvarpsstjóra. Sambærilegar reglur hafa ekki áður verið settar um prentmiðla en eðli málsins samkvæmt þykir rétt að ýmsir þeirra eigi jafnt við um alla tengda fjölmiðla. Í V. kafla er líka kveðið á um ritstjórnarlegt sjálfstæði sem leiðir beint af tillögum fjölmiðlanefndarinnar hinnar síðari. Því næst kemur ákvæðið um vernd heimildarmanna og síðan er fjallað um vernd tiltekinna grundvallarréttinda í næstu ákvæðum, þ.e. lýðræðislegar grundvallarreglur, bann við hatursáróðri og vernd barna gegn skaðlegu efni — þar er ein breyting sem ég mun nefna nánar á eftir. Því næst eru fyrirmæli um tal og texta á íslensku og aðgengi sjón- og heyrnarskertra að myndmiðlunarefni og þá er fjallað um skyldur fjölmiðlaþjónustuveitenda vegna almannaheilla. Enn fremur er fjallað skyldu til auðkenningar, dagskrárframboð og hlutfall dagskrárefnis frá sjálfstæðum framleiðendum, skyldu til varðveislu á fjölmiðlaefni og loks um rétt til andsvara.

Ákvæðið um ritstjórnarlegt sjálfstæði er í samræmi við tillögur hinnar þverpólitísku fjölmiðlanefndar frá árinu 2005. Hún lagði til að fjölmiðlaþjónustuveitendur settu sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni. Í skýrslu nefndarinnar er tekið fram að slíkar reglur hafi e.t.v. ekki úrslitaáhrif um ritstjórnarlegt sjálfstæði einar sér en með öðrum úrræðum gegni þær þó tilteknu hlutverki. Engin viðurlög liggja við brotum á þessum tilteknu fyrirmælum. Á hinn bóginn bæri fjölmiðlanefnd að taka það fram á heimasíðu sinni ef tiltekinn fjölmiðill hefði til að mynda ekki sett sér reglur af þessu tagi. Tilgangurinn með ákvæðinu er jafnframt sá að vera nauðsynlegur hvati þess að fjölmiðlar setji sér reglur um sjálfstæði ritstjórna. Þess er vænst að viðkomandi starfsmenn, eftir atvikum stéttarfélög þeirra, og síðast en ekki síst almenningur veiti aðhald sem verði öllum viðurlögum öflugra.

Verndun trúnaðar á milli fjölmiðlafólks og heimildarmanna er eitt af grundvallarskilyrðum þess að fjölmiðlar geti lagt sitt af mörkum til virks lýðræðis og er einn af hornsteinum tjáningarfrelsis og felst í þessu tilviki í réttinum til að taka við og miðla upplýsingum sem eiga erindi til almennings. Til að tryggja tjáningarfrelsi verði fjölmiðlafólk að geta heitið heimildarmönnum sínum nafnleynd og haldið það heit. Nú þegar er kveðið á um vernd heimildarmanna í réttarfarslöggjöfinni en rétt þykir að mæla einnig fyrir um það í lögum um fjölmiðla enda er frumvarpinu ætlað að mynda heildstæðan ramma um starfsemi allra fjölmiðla hér á landi.

Fyrirmæli frumvarpsgreinarinnar um bann við hatursáróðri eru nýmæli í löggjöf fjölmiðla. Viðleitni stjórnvalda til að verja börn og ungmenni gegn skaðlegu hljóð- og myndefni er því miður óþrjótandi viðfangsefni en að sama skapi brýnt að taka á því. Í frumvarpinu er að finna ákvæði um þessi mál. Meginefni þess lýtur þó fyrst og fremst að liðnum hljóð- og myndefni, þó er einnig ráðgert að taka upp almennar vísireglur sem taka til annarra fjölmiðlaþjónustuveitenda.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um reglur um rétt þeirra sem telja að á sér hafi verið brotið með því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í fjölmiðli. Ákvæði þar að lútandi er nú um sinn í gildandi lögum um prentrétt og útvarpslög. Í inngangsorðum hljóð- og myndmiðlunartilskipunarinnar er sérstök áhersla lögð á að aðildarríki tryggi rétt til andsvara í netmiðlum. Í inngangsorðum og tilmælum Evrópusambandsins, nr. 952/2006, er mælst til þess að aðildarríkin tryggi að andsvarsréttur gildi jafnt um nýja miðla sem hefðbundnar sjónvarpsútsendingar. Þá er í tilmælum Evrópuráðsins, nr. 16/2004, um andsvarsrétt í nýju fjölmiðlaumhverfi gerð ítarleg grein fyrir mikilvægi þess að aðilar hafi rétt til andsvara án tillits til þess um hvers konar miðil er að ræða hverju sinni. Með hliðsjón af framangreindu þykir rétt að með tilkomu nýrrar tækni á vettvangi fjölmiðlunar verði réttur þessi útfærður með samsvarandi hætti. Því er lagt til að allir þeir fjölmiðlaþjónustuveitendur sem frumvarpið tekur til verði bundnir af ákvæðinu.

Ég gæti farið allítarlega í það efni frumvarpsins sem snýr að viðskiptaorðsendingum og af hverju því hugtaki er beitt í stað auglýsingahugtaksins en orðsendingarhugtakinu er ætlað að ná yfir allar tegundir auglýsinga en líka svokallaðar orðsendingar eða hljóð- og myndsendingar í viðskiptaskyni. Þessar breytingar koma einkum til vegna örrar tækniþróunar í miðlun efnis. Sem dæmi má nefna að áhorfendur geta nú í auknum mæli sniðgengið auglýsingar með notkun nýrrar tækni, svo sem stafrænna upptökutækja og auknu úrvali rása, auk þess sem stafræn gagnvirk miðlun gefur fjölmiðlaþjónustuveitendum tækifæri til að afla tekna með fjölbreyttari hætti en áður. Í raun er verið að bregðast við þessari þróun með því að gera fjölmiðlaþjónustuveitendum mögulegt að þróa nýjar leiðir til tekjuöflunar.

Mikill munur var innan og utan EES-svæðisins á tekjuöflunarmöguleikum fjölmiðlaþjónustuveitenda á vettvangi hljóð- og myndmiðlunar vegna þeirra takmarkana sem sjónvarpstilskipunin setti. Í nýju hljóð- og myndmiðlunartilskipuninni er leitast við að koma til móts við kröfur evrópskra fjölmiðlaþjónustuveitenda um að rýmka ýmsar íþyngjandi takmarkanir í reglum um hljóð- og myndsendingar í viðskiptaskyni. Það skýrir flest þau ákvæði sem þar er að finna um fyrirkomulag þessara viðskiptaorðsendinga en um leið eru sett fram sérstök ákvæði sem eiga að vernda börn sérstaklega fyrir viðskiptaorðsendingum. Við undirbúning á lögleiðingu hljóð- og myndmiðlunartilskipunarinnar í landsrétt einstakra ríkja var lagt til að settar yrðu miklar hömlur á viðskiptaorðsendingar þar sem óhollur matur er auglýstur fyrir börn. Ekki var samstaða um að banna slíkar orðsendingar en ýmis ríki innan EES, til að mynda Danmörk, hafa þegar sett siðareglur sem banna auglýsingar af því tagi hljóð- og myndmiðlunarefnis. Þær tóku gildi um áramótin 2007/2008 og slíkt bann hafði þá þegar verið sett í Bretlandi í sjónvarpi og síðar hljóðvarpi.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um rétt og skyldu til flutnings á sjónvarpsútsendingum sem er ætlað að stuðla að aðgengi notenda að fjölbreyttu sjónvarpsefni og draga úr áhrifum lóðrétts eignarhalds á fjölmiðlum og dreifikerfum. Ákvæðin eiga við um stafræn fjarskiptanet sem flutt geta sjónvarpsútsendingar.

Lögð er til í þessu frumvarpi breytt stjórnsýsla. Þær breytingar eru annars vegar til komnar vegna þeirra skyldna sem hvíla á íslenska ríkinu samkvæmt EES-samningnum og hins vegar vegna áforma um að setja heildstæða löggjöf um fjölmiðla. Í hljóð- og myndmiðlunartilskipuninni er ekki gerð bein krafa um sjálfstæða stjórnsýslustofnun sem fari með eftirlit með fjölmiðlaþjónustuveitendum en eigi að síður eru ákvæði tilskipunarinnar þannig að tilvist sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar er talin óhjákvæmileg. Enn fremur liggja fyrir tilmæli frá Evrópuráðinu um að aðildarlönd þess skuli koma sér upp sjálfstæðum eftirlitsstofnunum á þessum vettvangi. Í tilmælunum er mikilvægi slíkra stofnana sérstaklega áréttað og áhersla lögð á þá sérþekkingu á þessum málaflokki sem þannig stofnanir búi yfir. Leitast er við að fylgja þessum tilmælum í frumvarpinu en þó með breyttum hætti. Ákvæði gildandi laga um útvarpsréttarnefnd hafa lengst af reynst vel en þau eru þó um allt ófullnægjandi í þessu sambandi, ekki síst nú þegar umræddri stjórnvaldsnefnd er ætlað að taka til allra fjölmiðla. Með frumvarpinu er því lagt til að fjölmiðlanefnd leysi útvarpsréttarnefnd af hólmi um það stjórnvald sem fer með eftirlit og umsjón með starfsemi hljóð- og myndmiðla auk þess sem henni er ætlað að hafa sambærilegt eftirlit og umsjón með starfsemi allra annarra miðla.

Ein þýðingarmesta forsenda þeirra breytinga sem lagðar eru til er sú að skýrt verði tekið af skarið um stjórnsýslulegt sjálfstæði fjölmiðlanefndar. Ljóst er að verkefni hinnar nýju stjórnvaldsnefndar verða umfangsmeiri en verið hefur. Þar koma bæði til ný verkefni, vegna þess að allir fjölmiðlar heyra nú undir stjórnvaldið auk nýrra fyrirmæla í hljóð- og myndmiðlunartilskipuninni, og frekari verkefni sem leiða af tilmælum frumvarpsins um lögfestingu tillagna hinnar þverpólitísku fjölmiðlanefndar um gagnsæi eignarhalds, flutningsreglur og fleira.

Virðulegi forseti. Í því fjölmiðlafrumvarpi sem nú er lagt fram hafa tillögur meiri hluta menntamálanefndar frá því í haust verið felldar inn í frumvarpið. Tillit hefur verið tekið til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar auk þess sem nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu, m.a. vegna þeirra athugasemda sem komu fram í opinberri umræðu. Lokabreytingar sem ég ætla ekki að tíunda er að finna í meirihlutaáliti menntamálanefndar, þær eru aðgengilegar öllum. Breytingarnar eru eftirfarandi:

1. Fjölmiðlastofa sem lögð var til í fyrra frumvarpi er orðin að fjölmiðlanefnd sem ætlað er að vera sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Með þessu er m.a. verið að koma til móts við þau sjónarmið að draga þurfi úr kostnaði í því árferði sem nú er. Eigi að síður er bent á það sérstaklega, bæði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar, að faglegt eftirlit með fjölmiðlum hér á landi sé nauðsynlegt. Umfangi og starfi slíkrar nefndar fylgir ákveðinn kostnaður. Í frumvarpinu er leitast við að gera stjórnsýsluna sjálfstæðari en nú er auk þess sem gert er ráð fyrir að þessi nefnd hafi eftirlit með öllum fjölmiðlum eins og þekkist í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við.

2. Nefna má þær breytingar sem gerðar hafa verið á ákvæðinu um bann við hatursáróðri. Verið er að innleiða tiltekið ákvæði hljóð- og myndmiðlunartilskipunarinnar auk þess sem stuðst er við tilmæli Evrópuráðsins um bann við hatursáróðri sem Ísland hefur samþykkt. En breytingin snýr að orðalagi og þar er vitnað til orðalags í 65. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæðis í almennum hegningarlögum. Því hefur orðið „stjórnmálaskoðanir“ verið fellt brott og í stað þess komið orðið „skoðanir“. Ég vil ítreka, af því að þetta var rætt talsvert, að þó að ákvæðið um bann við hatursáróðri sé nýmæli í löggjöf um fjölmiðla á það sér stoð í öðrum lögum og í stjórnarskrá.

3. Gerð hefur verið smávægileg breyting á þeirri málsgrein sem snýr að því að meiri hluti efnis í hljóð- og myndmiðlun skuli vera „íslenskt efni og annað evrópskt efni“ en áður stóð eingöngu „evrópskt“. Ákvæðið er nú orðað á sambærilegan hátt og í gildandi útvarpslögum að teknu tillit til breytts gildissviðs frumvarpsins.

4. Tekin eru af öll tvímæli um að ákvæði um vernd heimildarmanna eigi við um fjölmiðla sem hafa leyfi eða eru skráningarskyldir samkvæmt frumvarpinu. Kveðið er á um vernd heimildarmanna í lögum en ákvæði í fjölmiðlafrumvarpinu tekur til fleiri aðila og veitir meiri vernd. Þykir rétt að tiltaka sérstaklega að slík aukin réttindi eru aðeins nauðsynleg fjölmiðlum vegna þeirrar mikilvægu skyldu sem þeir hafa í lýðræðissamfélögum. Leitast er við að gera þetta ákvæði skýrara.

5. Gildisákvæðinu er breytt. Nýtt ákvæði er sett um lagaskil þar sem gert er ráð fyrir að frumvarpið taki gildi um leið og það er samþykkt. Er það lagt til í ljósi þess að EES-ríki áttu að vera búin að innleiða tilskipun þá sem frumvarpið byggist á fyrir 19. desember 2009.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir meginþætti frumvarpsins. Með því er í meginatriðum fylgt þeirri stefnumótun í fjölmiðlamálum sem nágrannalönd okkar í Evrópu hafa fylgt fram til þessa. Innleidd er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 65/2007, um breytingu á tilskipun ráðsins, nr. 552/1989, um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur. Einnig er brugðist við tilmælum Evrópuráðsins um hvernig tryggja beri fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.

Ég legg áherslu á að fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélögum. Þeir miðla fréttum og upplýsingum til almennings svo hann geti myndað sér skoðanir, tekið sjálfstæða afstöðu. Sá munur er því á fjölmiðlum og öðrum fyrirtækjum á markaði að þeir hafa gríðarleg áhrif á viðhorf almennings til manna og málefna og gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki við að koma sem fyllstu upplýsingum á framfæri.

Mál það sem ég hef mælt fyrir er á margan máta sérstakt. Aðdragandi þess ber því órækan vitnisburð. Ég held að þetta sé mikilvægt mál sem varðar miklu um það hvernig þeirri umræðu sem er nauðsynleg í sérhverju lýðræðissamfélagi vindur fram. Ég átta mig líka á því að þetta mál leysir svo sannarlega ekki öll vandamál fjölmiðla, hvorki hér á landi né annars staðar, en ég hvet til þess að málið fái ítarlega og gaumgæfilega meðferð í þinginu. Það er trú mín að þetta sé mikilvægur áfangi í því að bæta fjölmiðlaumhverfi á Íslandi.

Að þessu mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. menntamálanefndar Alþingis að 1. umr. lokinni.