139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

nýtt samkomulag um Icesave.

[10:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við heyrum sífellt þessar sögur um að þetta tefji endurreisn efnahagslífsins og atvinnulífsins. Samt sem áður segja gagnrýnendurnir sem hafa komið fram í fjölmiðlum sjálfir að fjármagnið sé erlendis og virðast hafa mjög greiðan og góðan aðgang að lánsfé þar og fjármögnun.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur ráðherrann eða hafa starfsmenn ráðuneytisins haft forgöngu um það að afla stuðnings hjá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Viðskiptaráði, Alþýðusambandinu og slíkum aðilum á síðustu dögum? Hefur ráðuneytið eða starfsmenn þess eða ráðherrann haft forgöngu um það? Er það ekki einnig rétt, hæstv. ráðherra, að lánshæfismat Íslands hafi farið batnandi frá því að við stoppuðum þessa vitleysu fyrir rúmu ári?

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra einnig út í orð um Pat „the Cope“ Gallagher sem við þekkjum sem formann sameinaðrar nefndar þingmanna Evrópuþingsins og Íslands um það þegar hann varar við (Forseti hringir.) og bendir á að það sé óeðlilegt að tengja Evrópusambandsumsóknina við Icesave sem kemur klárlega fram (Forseti hringir.) í bréfi hans til félaga sinna.