139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

nýtt samkomulag um Icesave.

[10:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Fjármálaráðuneytið hefur ekki sérstaklega haft frumkvæði að því að kynna aðilum þetta mál og þaðan af síður ég, en samninganefndin hefur fullt umboð til þess að veita upplýsingar um framvindu mála. Það er í hennar höndum að meta það og upplýsingar hafa þá verið veittar af hennar hálfu ef eftir því hefur verið leitað af aðilum úr viðskiptalífinu, enda held ég að samninganefndinni sé best treystandi fyrir því að meta það á hvaða stigi hvaða upplýsingar er unnt að veita án þess að það skaði samningaferlið sjálft.

Ég held að ástæða sé til að nefna að horfur hafa að sjálfsögðu lagast hvað varðar endurheimtur úr búinu og það lækkar reikninginn. Sömuleiðis hafa greiðslur borist hraðar inn í búið þannig að það er jákvæð þróun hvað það snertir. Útgreiðsluáætlunin verður framhlaðnari en menn höfðu reiknað með sem að sjálfsögðu lækkar heildarkostnaðinn og minnkar uppsöfnun vaxtakostnaðar eftir því sem hraðar greiðist inn á reikninginn.

Varðandi (Forseti hringir.) síðasta atriðið sem hv. þingmaður nefndi höfum við aldrei litið svo á að það væru eða ættu að vera nein tengsl á milli Icesave-deilunnar og annarra óskyldra mála, hvort sem það eru viðræður við Evrópusambandið eða samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.