139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[11:10]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Mér þykir það leitt að þurfa að benda hæstv. forseta á það að hún er forseti allra þingmanna, ekki bara hæstv. ráðherra eða stjórnarmeirihlutans heldur allra þingmanna. Hæstv. forseta ber að verja rétt okkar þingmanna til að sinna störfum okkar.

Ég óskaði eftir því fyrr í vikunni að hæstv. forseti tæki sig til og ætti orðastað við þá ráðherra sem ítrekað snúa út úr spurningum sem til þeirra er beint eða neita að svara. Ekkert hefur verið gert í því, málið hefur ekki verið rætt í forsætisnefnd. Og nú horfir hæstv. forseti upp á hæstv. sjávarútvegsráðherra neita að svara einföldum spurningum sem lúta að hugsanlegum lögbrotum hans sem hafa verið rökstudd með lögfræðiálitum. (Forseti hringir.) Hann neitar að svara því og neitar að svara hvort hann hafi önnur lögfræðiálit máli sínu til stuðnings. Þetta eru einfaldar spurningar sem hann getur svarað með jái eða neii og jafnvel smábörn (Forseti hringir.) mundu treysta sér til að svara. Því legg ég til að hæstv. forseti (Forseti hringir.) taki sig saman í andlitinu og ræði við hæstv. ráðherra um þessa framkomu.