139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[11:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla einmitt að ræða um fundarstjórn forseta.

Alþingi hefur þrenns konar hlutverk. Það hefur löggjafarvald í stjórnskipuninni, það hefur fjárveitingavald og það hefur eftirlitsvald. Þetta eftirlitsvald er grundvallað á 54. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Heimilt er alþingismönnum, með leyfi Alþingis, að óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni með því að bera fram fyrirspurn um málið eða beiðast um það skýrslu.“

Þetta er stjórnarskrárvarið og þess vegna er mjög mikilvægt, frú forseti, að forseti fari að tilmælum þingmanna þegar ekki er svarað og gangi á viðkomandi ráðherra að þeir svari spurningum sem til þeirra er beint, t.d. um það af hverju Icesave var ekki nefnt í fjárlagafrumvarpi fyrir árin 2009 og 2010.