139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

samgöngumál á suðvesturhorni landsins.

[11:43]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu og ég vil byrja á að taka undir þann heildarskilning á málaflokknum sem mér fannst koma fram í máli hæstv. ráðherra um að við ættum náttúrlega að reyna að leitast við að líta á landið sem eina heild þegar kemur að vegamálum vegna þess að vegir eru náttúrlega ekki bara fyrir þá sem búa á viðkomandi stöðum, heldur líka fyrir þá sem vilja fara þangað. Að því sögðu gildir þetta auðvitað líka um höfuðborgarsvæðið, ekki síst reyndar um höfuðborgarsvæðið vegna þess að afskaplega margir þurfa náttúrlega að leita til þess.

Það var rakið ágætlega í máli hv. framsögumanns hvaða helstu framkvæmdir þarf að ráðast í. Mig langar að beina sjónum þingheims að öðrum þáttum samgangna á höfuðborgarsvæðinu sem ég tel ekki síður mikilvæga þætti en bara nýframkvæmdir. Þá er ég að tala um almenningssamgöngur. Ég held að á höfuðborgarsvæðinu sé uppbygging almenningssamgangna komin skammarlega stutt á veg. Það hefur gengið ansi brösuglega á suðvesturhorninu að byggja upp nauðsynlegar almenningssamgöngur. Ég held að þetta sé jafnvel langstærsta fyrirliggjandi verkefni í samgöngumálum sem þjóðin stendur frammi fyrir, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) að byggja upp almenningssamgöngur á suðvesturhorninu.

Það er til marks um það hversu skammt á veg við erum komin í því að minnka vægi einkabílsins að það var rétt núna nýverið ákveðið á þingi að ríkisvaldið mundi koma að uppbyggingu hjólreiðastíga. Áður kom ríkisvaldið bara að uppbyggingu reiðvega, reiðstíga. Við erum komin svo skammt á veg. Við verjum ekki nándar nærri nógu miklu fjármagni í uppbyggingu almenningssamgangna. Meðan við gerum það ekki er rangt að horfa bara á nýframkvæmdir. Við hljótum fyrst að eiga að setja okkur markmið um að auka vægi almenningssamgangna eins og allar helstu borgir iðnríkjanna gera. Ég get tekið dæmi af Írlandi, menn eru farnir að verja þar 50% af fé til samgöngumála til almenningssamgangna. Ef við höfum ekki (Forseti hringir.) raunhæf markmið í þessu fyrst er ekki raunhæft að tala um hvaða nýframkvæmdir eigi að ráðast í.